ÍSÍ | Hjólað í vinnuna hefst á morgun

Hjólað í vinnuna
Hjólað í vinnuna

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands stendur í  fimmtánda sinn fyrir Hjólað í vinnuna, heilbrigðri vinnustaðakeppni um allt land, dagana 3.-23. maí. Landsmenn hafa tekið átakinu gríðarlega vel. Einnig má merkja að hjólreiðar allt árið hafa aukist til muna síðan að verkefnið hófst. Meginmarkmið Hjólað í vinnuna er að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta.

Meðan á átakinu stendur eru ýmsir leikir í gangi svo sem skráningarleikurinn þar sem allir þátttakendur fara sjálfkrafa í pott og eiga möguleika á að vera dregnir út í Popplandi á Rás 2 alla virka daga. Hjólreiðaverslunin Örninn gefur glæsilega vinninga og þann 23. maí er dregið út glæsilegt reiðhjól að verðmæti kr. 100.000. Myndaleikur verður í gangi á Instagram, Fésbók og á vefsíðu Hjólað í vinnuna þar sem fólk er hvatt til að taka skemmtilegar myndir af þátttöku sinni í verkefninu og merkja myndina með #hjoladivinnuna. Með því gætu þátttakendur unnið veglega vinninga frá Nutcase á Íslandi.

Setningarhátíð Hjólað í vinnuna 2017  verður í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Laugardal kl. 8:30 miðvikudaginn 3. maí.

Þátttakendum Hjólað í vinnuna er boðið í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum, þiggja ljúffengt bakkelsi og hlusta á stutt og hressileg hvatningarorð, en á mælendaskrá eru: Hafsteinn Pálsson, formaður almenningsíþróttasviðs ÍSÍ, Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra og Steinn Ármann Magnússon, hjólreiðamaður og leikari. Að ávörpunum loknum munu gestir og þátttakendur hjóla átakið formlega af stað.

Skráning fer fram á vefnum www.hjoladivinnuna.is, en þar má einnig finna ýmsar leiðbeiningar og skráningarblöð sem hægt er að prenta út og hengja upp, t.d. á kaffistofunni.

Nánari upplýsingar á www.hjoladivinnuna.is og eins veitir Hrönn Guðmundsdóttir, sviðsstjóri almenningsíþróttasviðs ÍSÍ, allar nánari upplýsingar í síma 514-4000 / 692-9025 eða á netfanginu hronn@isi.is.

HSK hvetur vinnustaði á sambandssvæðinu til þess að skrá sig í Hjólað í vinnuna.