Íslandsmót yngri aldursflokka

júdó 1
júdó 1

Íslandsmót aldursflokka yngri en 21 árs var haldið laugardaginn 3. maí og átti Selfoss 12 keppendur á mótinu. Heildarfjöldi keppenda var 121 frá níu félögum. Keppt var bæði í einstaklingskeppni og liðakeppni. Selfyssingar stóðu sig virkilega vel og flestir komu heim með verðlaun.

Í unglingaflokki U13 ára var Krister Andrason að keppa í -34 kg flokki og hafnaði í þriðja sæti. Mikael Magnússon gerði góða hluti og hafnaði í öðru sæti í -46 kg flokki eftir margar erfiðar baráttur. Haukur Ólafsson hafnaði í öðru sæti í -66 kg flokki, en hann var að keppa við erfiða andstæðinga og átti góðan dag að baki.

Í unglingaflokki u15 ára keppti Hrafn Arnarsson í -55 kg flokki og hafnaði í þriðja sæti eftir margar glímur. Bjartþór Böðvarsson keppti í -60 kg flokki, en þar sem að andstæðingur hans meiddi sig, fékk hann aðeins eina glímu og hafnaði í öðru sæti.

Í unglingaflokki U18 ára var Guðmundur Jónasson að keppa á sínu fyrsta móti, stóð hann sig með prýði og tók silfrið með sér heim úr -60 kg flokki. Ýmir Ingólfsson var að keppa í flokki -66 kg, stóð sig vel en kom ekki heim með nein verðlaun. Þess má geta að hann nefbraut sig rétt fyrir keppni en keppti samt. Grímur Ívarsson, sem var valinn í landsliðið nú á dögum, varð Íslandsmeistari í -81 kg flokki eftir stuttar glímur. Ásgeir Halldórsson glímdi vel og við þunga andstæðinga en hann tók silfur í +90 kg flokki.

Í aldursflokki U21 árs vorum við með þrjá keppendur, Trostan Gunnarsson keppti í -100 kg flokki. Hann tók silfrið með sér heim, en hann var að keppa við reynda einstaklinga. Efnilegur strákur hér á ferð. Úlfur Böðvarsson og Egill Blöndal, sem einnig voru valdir í landsliðið á dögunum, kepptu saman í -90 kg flokki, en Úlfur er að keppa uppfyrir sig í aldri. Enduðu leikar þannig að Úlfur tók bronsið en Egill gullið. Eftir daginn eru því tveir Íslandsmeistaratitlar komnir í hús.

Öll úrslitin má finna á heimasíðu Júdósambandsins.

---

Úlfur og Egill á verðlaunapalli.
Mynd: Umf. Selfoss/Þórdís Mjöll.