Ísold Assa og Oliver Jan á palli í fjölþraut

Frjálsar - Ísold Assa Guðmundsdóttir
Frjálsar - Ísold Assa Guðmundsdóttir

Meistaramót Íslands í fjölþrautum fór fram laugardaginn 20. febrúar. Mikil eftirvænting var hjá keppendum að fá loks að keppa eftir langt hlé.

Selfoss átti níu keppendur í fimmtarþraut 15 ára og yngri en þá er keppt í 60 m grindahlaupi, hástökki, kúluvarpi, langstökki og 800 m hlaupi, í þessari röð.

Hjá stelpunum varð Ísold Assa (14 ára) í þriðja sæti með 2.445 stig, bestan árangur í einstaka grein náði hún í hástökki með 1,60 m. Rétt á eftir henni varð Álfrún Diljá (15 ára) með 2.351 stig en hún náði bestum árangri í kúluvarpi með 11,07 m. Af öðrum árangri ber helst að nefna að Þórhildur Lilja (14 ára) hljóp frábært 800 m hlaup og var með þriðja besta árangur allra keppenda upp í kvennaflokk í þeirri grein, hún hljóp á 2:36,58 mín.

Hjá strákunum varð Oliver Jan (15 ára) í öðru sæti með 2.414 stig aðeins 68 stigum á eftir fyrsta sætinu. Flestum stigum náði Oliver Jan í kúluvarpi þegar hann kastaði 12,26 m, hann hljóp líka frábært 800 m hlaup á 2:22,04 mín og stórbætti sig í öllum greinum þrautarinnar. Hjálmar Vilhelm (13 ára) stóð sig einnig mjög vel en hann setti HSK met í 13 ára flokki í fimmtarþraut (með 15 ára áhöldum) með 1.366 stig og í 60 m grind (84 cm) á 11,71 sek.

Selfoss átti fjóra aðra keppendur í þessum flokkum sem allir stóðu sig mjög vel og voru að bæta sig í mörgum greinum. Öll úrslit í þrautinni má sjá í Þór mótaforriti Frjálsíþróttasambands Íslands.

Myndir frá mótinu má finna á flickr-síðu FRÍ

---

Ísold Assa lengst t.v. í keppni í grindahlaupi.
Ljósmynd: FRÍ