Jafntefli á móti HK

Katrín Ósk Magnúsdóttir
Katrín Ósk Magnúsdóttir

Selfoss og HK gerðu jafntefli 23 – 23 á laugardaginn, þegar HK kom í heimsókn á Selfoss. HK var yfir stóran hluta leiksins en Selfoss var aldrei langt undan. Staðan í hálfleik var 10 – 12 fyrir gestina. Um miðjan seinni hálfleik tók Selfoss góðan kafla, komst yfir og allt stefndi í að bæði stigin kæmu á Selfoss. Þegar um fimm mínútur voru til leiksloka var Selfoss komið með vænlega stöðu, 23-20 en þá kom slæmur kafli og mikið um mistök, meðal annars eitt víti sem fór forgörðum og tveggja mínútna brottrekstur sem hafði mikið að segja á lokamínútum leiksins. HK náði að jafna 23 – 23. Selfoss átti síðustu sóknina í leiknum en tókst því miður ekki að komast yfir þar sem leiktíminn rann út á sama tíma og skot frá Selfoss fór í netið. Jafntefli því staðreynd.

Sanngjörn úrslit miðað við gang leiksins en gríðarlega svekkjandi að ná ekki báðum stigunum eftir flotta baráttu. Þessi úrslit eru samt jákvæð en eins og áður hefur komið fram hafa stelpurnar ansi oft verið nálægt sigri og átt að ná í fleiri stig í vetur. Þær eru nú komnar í jólafrí en keppni hjá þeim hefst aftur 11. janúar á nýju ári. Þær sitja í níunda sæti deildarinnar og verður spennandi að fylgjast með þeim eftir áramót.

Markaskorun í leiknum:

Þuríður Guðjónsdóttir, 5 mörk

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, 4 mörk

Tinna Soffía Traustadóttir, 4 mörk

Hildur Öder Einarsdóttir, 3 mörk

Carmen Palamiariu, 3 mörk

Kara Rún Árnadóttir, 3 mörk

Dagmar Öder Einarsdóttir,  1 mark

Katrín Ósk Magnúsdóttir stóð í marki Selfoss og stóð sig gríðarlega vel.

Katrín Ósk Magnúsdóttir stóð sig gríðarlega vel í markinu.
Mynd: Inga Heiða Heimisdóttir