Júlíus Arnar og Magnús Ragnar sæmdir silfurmerki Selfoss

motokross-adalfundur-heidursvidurkenningar
motokross-adalfundur-heidursvidurkenningar

Aðalfundur mótokrossdeildar Umf. Selfoss fór fram í félagsheimilinu Tíbrá í gær. Ný stjórn var kjörin á fundinum auk þess sem Júlíus Arnar Birgisson og Magnús Ragnar Magnússon voru sæmdir silfurmerki Umf. Selfoss fyrir starf sitt í þágu deildarinnar.

Magnús Ragnar fráfarandi formaður fór yfir starf deildarinnar á liðnu ári en í upphafi sumars var ráðist í töluverðar breytingar á brautinni til að fá meira flæði til aksturs. Með breytingunum breikkuðu aksturslínur sem bjóða upp á öruggari framúrakstur og einnig varð brautin hraðari. Þá voru stökkpallar mótaðir þannig að þeir myndu henta breiðum hópi hjólara með öryggi í fyrirrúmi. Þessar breytingar og gott viðhald urðu til þess að aðgangstekjur jukust um helming á milli ára.

Samstarf við vélhjóladeild Þór í Þorlákshöfn var aukið til muna á árinu þar sem menn tóku höndum saman og héldu bikarmót í Enduro. Keppnin gekk vel og voru deildirnar það lukkulegar með keppnina að það er nokkuð öruggt að hún er komin til með að vera partur keppnistímabilinu.

Hefð hefur skapast fyrir því að Íslandsmótið hefjist á Selfossi og tókst það með eindæmum vel þar sem fjölmennusta keppni ársins fór fram þetta árið. Aðstæður voru eins góðar og hugsast getur þar sem allt gekk upp og ekki skemmdi fyrir að keppendur frá okkur börðust um toppsætin.

Tveir keppendur frá deildinni lönduðu Íslandsmeistaratitlum sl. sumar. Annars vegar Elmar Darri Vilhelmsson sem var að keppa í fyrsta skipti í unglingaflokki og Gyða Dögg Heiðarsdóttir varði Íslandsmeistaratitil sinn nokkuð örugglega. Gyða Dögg var í lok árs einnig kjörin aksturskona Íslands af MSÍ.

Æfingar voru tvisvar í viku frá maí og fram í september. Þær voru vel sóttar og í umsjón Gyðu Daggar og Heiðars föður hennar.

Rekstur deildarinnar var í góðu jafnvægi á seinasta ári og er horft til þess að auknar tekjur verði af brautargjöldum næsta sumar sem komi til með að standa undir kostnaði við viðhald brautarinnar.

Að lokum var ný stjórn kjörin. Formaður er Guðmundur Gústafsson, Karl Ágúst Hoffritz er gjaldkeri og ritari er Brynjar Örn Áskelsson. Meðstjórnendur eru Gyða Dögg Heiðarsdóttir, Heiðar Örn Sverrisson og Magnús Ragnar Magnússon.

böá/gj

---

Magnús Ragnar og Júlíus Arnar ásamt Guðmundi Kr. Jónssyni formanni Umf. Selfoss.
Nýkjörin stjórn mótokrossdeildarinnar f.v. Magnús Ragnar, Heiðar Örn, Gyða Dögg, Guðmundur, Karl Ágúst og Brynjar Örn Áskelsson.
Ljósmyndir Umf. Selfoss/Brynjar Örn og Guðmundur Kr.

motokross-adalfundur-stjorn