Kvittað upp á Unglingalandsmót UMFÍ á Selfossi 2020

ULM 2020 Undirritun samnings (1)
ULM 2020 Undirritun samnings (1)

Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Selfossi um verslunarmannahelgina 2020. Samningur þessa efnis var undirritaður í hálfleik á æsispennandi handboltaleik milli Selfoss og FH í Olísdeildinni. Leikurinn fór fram í pakkfullri Hleðsluhöllinni á Selfossi í gær.

Undir samninginn skrifuðu þau Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, og fulltrúar samstarfsaðila mótsins á Selfossi, þau Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Árborgar, og Guðríður Aadnegard, formaður HSK.

Haukur segir Unglingalandsmót UMFÍ eina af birtingarmyndum íslenska forvarnarmódelsins.

„Á mótinu leggjum við mikla áherslu á skipulagt íþróttastarf, þar sem allir geta verið með á eigin forsendum og samveru fjölskyldunnar um verslunarmannahelgina. Á mótinu skemmta sér allir vel á heilbrigðum forsendum og geta þátttakendur prófað fjölda íþróttagreina ásamt því að fylgjast með og hlusta á allt það nýjasta sem í boði er á tónlistarsviðinu á kvöldvökunum. Nú er Unglingalandsmót UMFÍ orðið ein af helstu hátíðunum um verslunarmannahelgina þar sem allir skemmta sér saman á heilbrigðan hátt. Það er besta forvörnin,‟ segir hann.

UM UNGLINGALANDSMÓT UMFÍ

Unglingalandsmót UMFÍ hefur verið haldið frá árinu 1992 og verður þetta í annað sinn sem það verður haldið á Selfossi.

Margir þekkja orðið Unglingalandsmót UMFÍ sem einn af áfangastöðum fjölskyldufólks um verslunarmannahelgina og staðinn til að vera á enda lögð áhersla á samveru fjölskyldunnar. Þótt mótið sé hugsað fyrir ungmenni 11-18 ára sem reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum þá er það vímulaus fjölskylduhátíð þar sem boðið er upp á fjölda viðburða við allra hæfi.

Unglingalandsmót UMFÍ er jafnframt góður staður fyrir vini til að koma saman á og taka þátt í mörgum íþróttagreinum. Unglingum hefur fjölgað á mótinu sem taka þátt í greinum á borð við strandblak og strandhandbolta, körfubolta og fleiri greinum og búa til sína eigin búninga.

Hvorki er skilyrði að vera félagi í UMFÍ eða stunda íþróttir til að taka þátt í Unglingalandsmóti UMFÍ og geta allir á aldrinum 11-18 ára verið með.

Ítarlegri upplýsingar um Unglingalandsmót UMFÍ veita:

Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri móta UMFÍ, í síma 898-1095

Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, í síma 861-8990

Guðríður Aadnegard, formaður HSK, í síma 897-4282

---

F.v. eru Gísli Halldór, Haukur og Guðríður sem undirrituðu samninginn með dyggum stuðningi ungs íþróttafólks frá Selfossi.
Ljósmynd: UMFÍ/Jón Aðalsteinn