Fjórir af þeim sjö keppendum sem verða í landsliðsverkefnum næstu daga. Talið frá vinstri : Hanna Dóra, Bryndís Embla , Hjálmar Vilhelm og Daníel Breki.
Iðkendur frjálsíþróttadeildar Selfoss eru margir í landsliðsverkefnum næstu dagana. Eva María Baldursdóttir Umf.Selfoss náði lágmarki í hástökki á Evrópumeistaramót U23 sem haldið verður í Bergen 17.-20.júlí. Eva María keppir í hástökki fimmtudaginn 17.júlí en fjórar aðrar íslenskar stúlkur náðu lágmarki á mótið.
Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar fer fram í Skopje í Norður Makedoníu dagana 20.-26.júlí og þar á frjálsíþróttadeild Selfoss tvo keppendur af þeim fjórum sem Ísland sendir í frjálsíþróttakeppnina. Bryndís Embla Einarsdóttir Umf Selfoss keppir í spjótkasti fimmtudaginn 24.júlí og Hjálmar Vilhelm Rúnarsson Umf Selfoss keppir í tugþraut en þrautin fer fram 21.-22.júlí. Rúnar Hjálmarsson yfirþjálfari Frjálsíþróttadeildar Selfoss er auk þess þjálfari íslenska hópsins.
Norðurlandameistaramót U20 fer fram í Uppsala í Svíþjóð dagana 26.-27.júlí. Einn keppandi keppir í hverri grein frá Íslandi og voru fjórir iðkendur frjálsíþróttadeildar Selfoss valdir til keppninnar. Daníel Breki Elvarsson Umf Selfoss keppir í spjótkasti, Hanna Dóra Höskuldsdóttir Umf Selfoss keppir í kringlukasti, Þorvaldur Gauti Hafsteinsson Umf Selfoss keppir í 800m hlaupi og Ívar Ylur Birkisson Dímon keppir í 110m grindahlaupi.

Eva María keppir í hástökki á EM U23