Naumt tap á móti Fram

Hrafnhildur Hanna gegn Fram
Hrafnhildur Hanna gegn Fram

Meistaraflokkur kvenna tók á móti Íslandsmeisturum Fram á laugardag. Þrátt fyrir virkilega góðan leik varð niðurstaðan svekkjandi eins marks tap, lokastaðan 21-22. Hins vegar voru þetta klárlega bestu 60 mínútur sem liðið hefur sýnt í vetur og því svekkjandi að liðið hafi ekki fengið neitt út úr leiknum. Selfoss átti að fá a.m.k eitt stig úr leiknum ef ekki bæði.

Vörn og markvarsla heldur áfram að vera aðalsmerki liðsins og náði vörnin að halda skyttum Framliðsins í skefjum í dag en t.d. skoraði besta skytta gestanna aðeins fjögur mörk utan af velli úr mun fleiri tilraunum en hins vegar þá skoraði hún úr öllum fjórum vítunum sem hún tók. Þá er sóknarleikurinn Selfoss að batna ef mið er tekið af þessum leik en sóknarleikurinn hefur verið smá höfuðverkur það sem af er tímabilsins. Það  má ekki gleyma því að lið Selfoss er gríðarlega ungt og er að læra að spila á móti ýmsum varnarafbrigðum sem þær hafa ekki vanist úr 4. og 3. flokki.  Það eru fjórir leikmenn í liðinu sem spiluðu með 4. flokki í fyrra og þetta hefur verið stórt stökk fyrir þær að taka í vetur. Í framhaldi af þessu má geta þess að meðalaldur Selfossliðsins á laugardag var 19 ár og því var þetta góð lexía að spila svona jafnan leik og læra hvað betur má fara.

Stelpurnar okkar leiddu leikinn fyrstu 45 mínúturnar og þegar 15 mínútur voru til leiksloka var staðan 18-16 fyrir Selfoss. Aðeins 5 mínútum síðar var staðan orðin 19-19. Síðustu 10 mínútur leiksins skiptust liðin á að eiga möguleika á að klára leikinn og urðu þetta skemmtilegar og spennandi lokamínútur. Okkar stelpur fengu gott færi á línu í næst síðustu sókninni til þess að jafna 22-22 en markvörður Fram varði frá Tinnu, það var hins vegar augljóslega brotið á henni og hefði víti og 2 mínútna brottvísun verið réttur dómur í þessu tilviki en ekkert var dæmt. Okkar stelpur unnu boltann aftur og fengu annað tækifæri til að jafna en það tókst ekki heldur. Fram fékk boltann þegar 10 sekúndur voru eftir og héldu honum til loka.

Heilt yfir geta stelpurnar verið stoltar af leiknum. Liðið er nú þegar komið með 4 stig svo bilið á milli Selfoss og annarra liða í deildinni er að minnka frá því í fyrra.

Liðið hefur náð góðum köflum í leikjum vetrarins en slæmu kaflarnar hafa verið of slæmir til að stig náist úr þeim leikjum. Skemmst er að minnast þess er liðið hafði góða stöðu gegn ÍBV fyrr í vetur en missti það niður í tap með slæmum lokamínútum. Þá tapaði liðið fyrir Haukum í jöfnum leik þar sem 5 mínútna slæmur kafli í lok fyrri hálfleiks gerði út um leikinn.

Það er stígandi í liðinu og verður spennandi að fylgjast með næstu leikjum en næsti leikur liðsins er þriðjudaginn 12. nóvember. Þá verður spilað í Coca cola bikarnum á móti Haukum. Leikurinn fer fram í Schenkerhöllinni í Hafnarfirði og hefst kl. 18:30. Fólk er hvatt til að mæta og styðja sitt lið til sigurs.

Tölfræði:
Hanna 7 mörk og 6 stoðsendingar
Tinna 5 mörk og 1 stoðsending
Þuríður 3 mörk og 2 stoðsendingar
Hildur 2 mörk og 2 stoðsendingar
Kara 2 mörk
Sigrún 1 mark
Thelma 1 mark
Hulda 2 stoðendingar

Áslaug varði 16 skot (43%)
Katrín varði 1 víti af 2 (50%)

sa/gj

Mynd: Sunnlenska.is/Guðmundur Karl