Nýr samstarfssamningur við MS

Undirritun UMFS og MS
Undirritun UMFS og MS

Handknattleiksdeild Umf. Selfoss og MS hafa undirritað samstarfssamning með það að markmiði að efla íþrótta- og forvarnarstarf félagsins en með þessum nýja samningi verður fyrirtækið einn af aðalstyrktaraðilum deildarinnar keppnistímabilið 2017-2018. MS hefur alla tíð stutt vel við íþróttastarf á Selfossi en fyrirtækið er einn stærsti atvinnustaður bæjarfélagsins og tengsl þess við íþrótta- og æskulýðsstarf bæjarins eru því sterk.

Selfyssingar eiga bæði karla- og kvennalið í Olís deildinni í vetur og reka  mjög  öflugt barna- og unglingastarf auk akademíu við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Samningur þessi mun styrkja starf handknattleiksdeildarinnar, sem stöðugt fer stækkandi og báðir aðilar skuldbinda sig til að vinna saman að sameiginlegum markmiðum sem tilgreind eru í samstarfssamningi.

Það var glatt á hjalla í húsakynnum MS Reykjavík þegar Jón Birgir Guðmundsson, varaformaður handknattleiksdeildarinnar og Ari Edwald, forstjóri MS skrifuðu undir samninginn. Þau  Elvar Örn Jónsson og Perla Ruth Albertsdóttir, leikmenn UMF Selfoss í meistaraflokki og landsliðsfólk, voru þeim Jóni Birgi og Ara innan handar og sáu til þess að allt færi vel fram.

Handknattleiksdeildin er mjög ánægð og þakklát fyrir þennan samstarfssamning við MS og deildin mun áfram að leggja sig fram um að bæta sig á öllum sviðum starfsins, í ört stækkandi Ungmennafélagi Selfoss.


Mynd: Jón Birgir Guðmundsson, varaformaður handknattleiksdeildarinnar og Ari Edwald, forstjóri MS skrifuðu undir samninginn í húsakynnum MS í Reykjavík, en Perla Ruth og Elvar Örn voru þeim innan handar.