Sætur sigur í Eyjum

PD kvk Valur-Selfoss (2)
PD kvk Valur-Selfoss (2)

Stelpurnar okkar áttu erfiðan útleiki gegn ÍBV í Pepsi-deildinni í knattspyrnu í gær og fór leikurinn fram í strekkingsvindi.

Selfyssingar léku með vindinn í fangið í fyrri hálfleik en tókst þrátt fyrir það að skapa sér nokkur góð marktækifæri. Að sama skapi stóð Alexa Gaul markvörður vaktina með prýði og greip nokkrum sinnum inn í leikinn á ögurstundu.

Selfyssingar byrjuðu seinni hálfleik af krafti og eftir sjö mínútna leik hafði Celeste Boureille komið boltanum í mark Eyjakvenna. Þá þegar var ljóst hvert stefndi og Erna Guðjónsdóttir bætti tveimur mörkum við áður en yfir lauk. Fyrra markið kom, einungis þremur mínútum eftir mark Celeste, úr aukaspyrnu af 40 metra færi en síðara markið skoraði Erna beint úr hornspyrnu á 71. mínútu.

Undir lokinn gerðist afar umdeilt atvik þegar Erna fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt. Því er ljóst að hún verður í banni í næsta leik Selfoss gegn Fylki á fimmtudag.

Sigur Selfyssinga var afar sannfærandi enda vel hvattar af bestu stuðningsmönnum Pepsi-deildarinnar.

Að loknum tíu leikjum er Selfoss í fjórða sæti Pepsi-deildarinnar með 19 stig. Eins og áður hefur komið fram er næsti leikur á útivelli gegn Fylki í undanúrslitum Borgunarbikarsins á fimmtudag kl. 19:15. Næsti leikur þeirra í Pepsi-deildinni er fyrir norðan gegn Þór/KA þriðjudaginn 29. júlí kl. 18:00.

Nánar er fjallað um leikinn á vef Sunnlenska.is.

---

Erna átti góðan leik og er meðal markahæstu leikmanna Pepsi-deildarinnar.
Mynd: Fótbolti.net/Hafliði Breiðfjörð