Sætur sigur Selfyssinga

handbolti-stelpurnar-fagna
handbolti-stelpurnar-fagna

Selfoss sótti tvö stig á Ásvelli á laugardag þegar liðið mætti Haukum í spennuþrungnum leik Olís-deildinni og hafði sigur með einu marki, 27-28.

Leikurinn var hin besta skemmtun og var jafnt á fyrstu tölum. Í stöðunni 4-5 fyrir Selfyssinga settu stelpurnar okkar í annan gír og breyttu stöðunni í 6-12. Haukar náðu þó vopnum sínum á ný og minnkuðu muninn í 13-15 fyrir hálfleik.

Haukar jöfnuðu metin með því að skora fyrstu tvö mörkin í seinni hálfleik og við tók æsispennandi hálfleikur þar sem aldrei munaði meira en tveimur mörkum á liðunum. Staðan var jöfn 27-27 þegar Selfyssingar lögðu af stað í síðustu sókn sína í leiknum sem Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði úr. Seinasta sókn Hauka endaði með að þær fengu víti sem Katrín Ósk Magnúsdóttir varði og tryggði þar með sigur Selfyssinga 27-28.

Nánar er fjallað um leikinn á vef Sunnlenska.is.

Hrafnhildur Hanna var markahæst Selfyssinga með 12 mörk, Dijana Radojevic, Perla Ruth Albertsdóttir og Adina Maria Ghidoarca skoruðu fjögur mörk, Carmen Palamariu þrjú og Kristrún Steinþórsdóttir eitt. Áslaug Ýr Bragadóttir varði níu skot og Katrín Ósk Magnúsdóttir átta skot í leiknum.

Liðið er í sjötta sæti Olís-deildarinnar með tvö stig og sækir Fram heim á laugardag kl. 13:30.

---

Stelpurnar fögnuðu gríðarlega í leikslok.
Ljósmynd: Eva Björk