Selfoss mætir Stjörnunni í umspili

2014-04-15
2014-04-15

Selfyssingar sóttu Mosfellinga heim, þriðjudaginn fyrir páska, og máttu þola tap eftir að hafa leitt nánast allan leikinn. Jafnt var á tölum í upphafi leiks en Selfyssingar komust mest þremur mörkum yfir þegar líða tók á fyrri hálfleikinn í stöðunni 8-11. Strákunum í Aftureldingu gekk mjög illa að komast í gegnum vörn okkar manna en Selfoss var að skila flottum varnar- og sóknarleik. Gestgjafarnir náðu að minnka muninn og jafna rétt fyrir hlé og var staðan jöfn, 13-13, þegar flautað var til leikhlés.

Afturelding skoraði fyrstu tvö mörk seinni hálfleiksins en Selfoss náði að jafna og náði á tímabili aftur þriggja marka forystu og leiddi svo leikinn mest allan tímann. Það var ekki fyrr en á 54. mínútu sem Afturelding jafnaði 21-21 og þegar 57 mínútur voru liðnar af leiknum var staðan 23-23. Síðustu mínútur leiksins voru Selfyssingar seinir í vörn, tóku of langan tíma í innáskiptingar sem lið Aftureldingar nýtti sér með hröðum sóknum og 25-23 tap staðreynd. Þar með náði Afturelding að tryggja sig í efsta sæti deildarinnar og fara beint upp í úrvalsdeild.

Andri Már Sveinsson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Einar Sverrisson, Andri Hrafn Hallsson og Ómar Ingi Magnússon skoruðu 3, Atli Einar Hjörvarsson, Hörður Másson og Sverrir Pálsson 2 og Atli Kristinsson 1.

Fyrsta deildin hefur verið jöfn og spennandi í allan vetur og hvert stig skipt máli. Sem dæmi má nefna að ef Selfoss hefði haft aðeins eitt stig í viðbót, fyrir þennan síðasta leik liðsins í deildinni, hefði liðið verið að spila til úrslita um það hvort það væri Selfoss eða Afturelding sem færi beint upp. Liðið náði 33 stigum í vetur í 20 leikjum en það er tíu stigum meira en á síðasta tímabili en þá spilaði liðið 21 deildarleik. Flottur stígandi er í liðinu sem á möguleika á að komast upp úr 1. deildinni og spila í úrvalsdeild næsta tímabil. Eftir páska hefst einmitt umspil um sæti í úrvalsdeildinni. Selfoss mætir þá liði Stjörnunnar og fer fyrsti leikur liðanna fram 24. apríl (sumardaginn fyrsta) klukkan 19:30 í Mýrinni í Garðabæ. Leikur tvö verður á Selfossi laugardaginn 26. apríl og ef þriðja leikinn þarf verður hann í Garðabæ, þriðjudaginn 29. apríl.

Hvetjum alla til að taka bíltúr í Garðabæinn á sumardaginn fyrsta og svo í Íþróttahús Vallaskóla á laugardaginn. Nú þarf ungt og efnilegt lið okkar Selfyssingar góðan stuðning til að klára þetta verkefni og fara alla leið.

Áfram Selfoss!

Mynd: Selfyssingar fengu afhent bronsverðlaun eftir leikinn.