Selfoss með sex Íslandsmeistaratitla, fimm silfur og tvö brons

Íslandsmótið í taekwondo fór fram á Ásbrú í Keflavík sunnudaginn 25. mars sl. Þetta var sannkölluð taekwondo-helgi því dagana fyrir mótið fór fram dómaranámskeið með yfirdómara frá Alþjóðlega taekwondosambandinu. Umf. Selfoss sendi 16 keppendur til leiks og komust 13 þeirra sá pall. Þau gerðu sér lítið fyrir og unnu 6 Íslandsmeistaratitla, 5 silfurverðlaun og 2 bronsverðlaun. Keflvíkingar reyndust hlutskarpastir, en þeir fengu 66 stig. Lið Selfoss varð í 2. sæti með 47 stig og Afturelding hafnaði í 3. sæti með 36 stig.

Samkvæmt tilkynningu frá Taekwondosambandi Íslands urðu kaflaskil á Íslandsmeistaramótinu í ár með nýjum reglum, vel þjálfuðum dómurum og nýjum rafbrynjum sem notaðar verða á Ólympíuleikunum í sumar. Mikil ánægja var með framkvæmd mótsins og því lýst sem einu best heppnaða móti sambandsins í mörg ár.

Dagana fyrir mótið var haldið dómaranámskeið á vegum yfirdómara Alþjóða taekwondosabandsins, Chakir Chelbat, en hann verður yfirdómari á Ólympíuleikunum sem haldnir verða í London í sumar. Á Íslandi eru nú tveir alþjóðlegir dómarar í taekwondo og mun annar þeirra, Hlynur Gissurarson, dæma á Ólympíuleikunum í London.

Rúmlega 70 keppendur voru skráðir á mótið frá 10 félögum. Keppt var í fjórum flokkum; barnaflokki (12-14 ára), flokki junior (15-17 ára), flokki senior (18-29 ára) og flokki superior (30+ ára). Kristín Björg Hrólfsdóttir frá Selfossi og Jón Steinar Brynjarsson frá Keflavík voru valin keppendur Íslandsmótsins.

Árangur keppenda frá taekwondodeild Umf. Selfoss var eftirfarandi:

Cadet 8
2. Dagný María Pétursdóttir
3. Lilja Hrafndís Magnúsdóttir

Junior 1
2. Hannes Orri Ásmundsson

Junior 3
2. Sunna Valdemarsdóttir

Junior 4
1. Símon Bau Ellertsson
2. Jón Páll Guðjónsson

Junior 5
1. Daníel Bergur Ragnarsson

Senior 1
3. Svanur Þór Sigurðsson

Senior 2
1. Þorvaldur Óskar Gunnarsson

Senior 4
1. Daníel Jens Pétursson

Senior 5
1. Kristín Björg Hrólfsdóttir
2. Sara Hvanndal Magnúsdóttir

Superior 2
1. Víðir Reyr Björgvinsson