Selfyssingar lutu í gras

Celeste Bourille
Celeste Bourille

Selfoss mátti lúta í gras þegar liðið sótti Þór/KA heim í Pepsi-deildinni í gær. Var þetta fyrsti ósigur Selfoss á útivelli í deildinni í sumar en þær höfðu fram að þessu sigrað í öllum fimm leikjum sínum á útivelli.

Selfyssingar náðu sér engan veginn á strik í fyrri hálfleik og komust heimakonur yfir á 26. mínútu. Það var allt annað og frískara lið Selfoss sem mætti til leiks í seinni hálfleik og jafnaði Celeste Boureille metin á 62. mínútu. Þær náðu þó ekki að láta kné fylgja kviði og fór svo að leikmenn Þórs/KA skoruðu sigurmark leiksins á 77. mínútu.

Þetta var lokaleikur Celeste, Dagnýjar Brynjarsdóttur og Thelmu Bjarkar Einarsdóttur með Selfossi á þessu keppnistímabili en þær eru á leið til Bandaríkjanna í nám. Selfyssingar hafa ekki í hyggju að bæta við sig leikmönnum þrátt fyrir að missa þrjá af sínum sterkustu leikmönnum en æfingahópur liðsins er breiður og þeir leikmenn sem hafa verið fyrir utan byrjunarliðið munu taka sæti þremenninganna sem kveðja nú.

Eftir leikinn er Selfoss í 5. sæti Pepsi-deildarinnar með nítján stig. Næsti leikur stelpnanna er á JÁVERK-vellinum gegn Aftureldingu miðvikudaginn 6. ágúst kl. 19:15.

Fjallað var um leikinn á vef Sunnlenska.is.

---

Celeste Bourille skoraði mark Selfyssinga í sínum síðasta leik á tímabilinu.
Mynd: Umf. Selfoss/Gissur Jónsson