Selfyssingar sýndu stjörnuleik

Handbolti - Andri Már Sveinsson (1)
Handbolti - Andri Már Sveinsson (1)

Selfoss tók á móti Stjörnunni í toppbaráttu 1. deildar á föstudag en með sigri í leiknum gat Stjarnan tryggt sér sæti í Olís-deildinni á næsta keppnistímabili.

Stjarnan var ávallt skrefinu á undan í fyrri hálfeik og náði mest tveggja marka forskoti sem Selfyssingar náðu jafnharðan að brúa. Staðan í hálfleik 15-16 fyrir Stjörnunni.

Selfyssingar mættu af fítonskrafti í síðari hálfleik, skoruðu fimm fyrstu mörkin án þess að Stjarnan fengi rönd við reist og voru skyndilega komnir í vænlega stöðu. Staðan átti eftir að vænkast enn frekar því Selfoss skoraði 14 mörk gegn 6 á fyrsta korterinu.

Stjarnan klóraði í bakkann undir lok leiks og minnkaði muninn í eitt mark á lokasekúndunum 36-35 fyrir heimamenn og baráttan um toppsæti deildarinnar í algleymi.

Teitur Örn Einarsson með 9 mörk og Andri Már Sveinsson með 8 voru markahæstir Selfyssinga. Guðjón Ágústsson og Elvar Örn Jónsson skoruðu 6, Eyvindur Hrannar Gunnarsson 4, Hergeir Grímsson 2 og Alexander Egan 1. Helgi Hlynsson varði 9 skot í markinu og Birkir Fannar Bragason 4.

Nánar er fjallað um leikinn á vef Sunnlenska.is.

Selfoss er í öðru sæti deildarinnar með 32 stig, einungis tveimur stigum á eftir Stjörnunni og mæta í næstu umferð Fjölni í Grafarvogi mánudaginn 28. mars kl. 19:30. Fjölnir er í þriðja sæti deildarinnar tveimur stigum á eftir Selfoss.

---

Andri Már afgreiddi Stjörnumenn hvað eftir annað í leiknum.

Ljósmynd: Umf. Selfoss/JÁE