Sigþór Helgason fjórfaldur Íslandsmeistari

Unglingameistaramót Íslands 15-22 ára var haldið í Frjálsíþróttahöllinni helgina 4.-5. febrúar sl. HSK/Selfoss sendi öflugt lið til leiks sem stóð sig mjög vel. Níu Íslandsmeistaratitlar komu í hús hjá HSK/Selfoss, þrjú silfur og átta brons. Í einstökum flokkum varð lið HSK/Selfoss í 2. sæti í tveimur þeirra, þ.e. hjá 16-17 ára stúlkum og 20- 22 ára piltum. Síðast en ekki síst voru tvö HSK-met slegin á mótinu.

Annars vegar bætti Eva Lind  Elíasdóttir Þór sitt eigið met í 60 m grindahlaupi 16-17 ára úr 9,30 sek í 9,29 sek og sigraði hlaupið. Hins vegar bætti boðhlaupssveit stúlkna 16-17 ára HSK-metið í 4x200 m boðhlaupi um rúma hálfa sekúndu er sveitin kom í mark á 1:51,80 mín. Sveitina skipuðu þær Eva Lind Elíasdóttir, Þór, Andrea Sól Marteinsdóttir og Sólveig Helga Guðjónsdóttir, báðar frá Selfossi, og Elínborg Anna Jóhannsdóttir, Laugdælum. HSK/Selfoss varð í fjórða sæti í stigakeppni mótsins. ÍR-ingar báru höfuð og herðar yfir aðra andstæðinga og sigruðu með 497,8 stigum.

Sigþór Helgason Selfossi stóð sig frábærlega. Hann keppti í fjórum einstaklingsgreinum í 15 ára flokki pilta og sigraði þær allar. Hann stökk piltahæst í hástökki með því að vippa sér yfir 1,76 m og bæta sig um 1 cm innanhúss, varpaði kúlunni lengst allra eða 13,56 m sem er bæting um 17 cm. Þá bætti hann sig um 9 cm í langstökki með 5,77 m og stökk 11,69 m í þrí-stökki. Sigþór var síðan í bronsveit HSK/Selfoss í 16-17 ára flokki í 4x200 m boðhlaupi, en sveitin hljóp á tímanum 1:46,50 mín. Með honum í sveitinni voru Baldvin Ari Eiríksson, Selfossi og Arnar Einarsson og Víkingur Freyr Erlingsson, úr Vöku.

Eva Lind Elíasdóttir, Þór, sem keppir í 16-17 ára flokki, var drjúg að vanda. Hún sigraði kúluvarpið með 12,90 m kasti og 60 m grindahlaupið á 9,09 sek. Þá varð hún þriðja í 60 m hlaupi á fínum tíma 8,34 sek.

Þá náði Sólveig Helga Guðjónsdóttir, Selfossi, sem keppti upp fyrir sig í flokki 20-22 ára, ágætum tíma í 400 m hlaupi 63,11 sek, sem er gott fyrsta hlaup á keppnistímabilinu.

Thelma Björk Einarsdóttir stóð sig sömuleiðis vel í kúluvarpinu er hún varpaði 11,47 m og Elínborg Anna Jóhannsdóttir, Laugdælum í þrístökki þegar hún jafnaði sinn besta árangur og stökk 10,20 m.

Dagný Lísa Davíðsdóttir, Selfossi, keppti í nokkrum greinum í flokki 15 ára. Hún vann m.a. í bronsverðlaun í hástökki er hún stökk 1,49 m.

Í elsta flokknum hjá piltunum 20-22 ára var HSK/Selfoss með öfluga einstaklinga. Hreinn Heiðar Jóhannsson, Laugdælum, vann tvo titla, í langstökki þegar hann bætti sig um 18 cm innanhúss og stökk 6,47 m og í 60 m grindahlaupi er hann hljóp á 9,29 sek. Hreinn vann síðan silfur í þrístökkinu með því að stökkva 12,35 m (þar sigraði Bjarni Már Ólafsson, Vöku, með 13,28 m stökki) og brons í kúluvarpi með 10,90 m kasti. Bjarni Már varð síðan að láta sér linda annað sætið í langstökkinu á eftir Hreini, er hann stökk 6,28 m.

-óg/ög