Sigur á móti ÍH

Atli á móti ÍR
Atli á móti ÍR

Meistaraflokkur karla náði í tvö stig í Hafnarfjörðinn í dag þegar þeir unnu ÍH 27-30 eftir hörkubaráttu. Leikurinn byrjaði nokkuð jafnt en Selfoss náði þó forskoti um miðjan fyrri hálfleikinn í stöðunni 4-8. Hélst munurinn tvö til fjögur mörk og var staðan 13-16 í hálfleik. Í seinni hálfleik misstu Selfyssingar forskotið og hleyptu ÍH of mikið inn í leikinn, gáfu þeim ódýra bolta og nokkuð um mistök. Þegar rúmar fimm mínútur voru til leiksloka náði ÍH að jafna 25-25 og æsispennandi lokamínútur framundan. Sem betur fer náðu okkar strákar að bíta frá sér og landa sigri, lokatölur 27-30 og tvö stig staðreynd.

Markahæstir í liði Selfoss voru Atli Kristinsson með 7 mörk, Hörður Másson með 6 mörk og Einar Sverrisson var með 5 mörk. Sverrir Andrésson átti ágætan leik en hann stóð í marki Selfoss allan leikinn ef frá er talið eitt víti sem Sebastian gerði heiðarlega tilraun til að verja.

Selfoss situr áfram sem fastast í þriðja sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir Stjörnunni og fimm stigum á eftir Aftureldingu sem eru efstir. Æsispennandi toppbarátta og nóg af stigum eftir í pottinum. Næsti leikur liðsins er á heimavelli, föstudaginn 7. mars þegar Hamrarnir frá Akureyri mæta.

Mynd: Atli Kristinsson svífur inn í teiginn í leik á móti ÍR fyrr í þessum mánuði.