Sigur gegn Val í lokaleik 3. flokks karla

Í lið Selfoss vantaði talsvert að þessu sinni. Jóhann Bragi var enn meiddur, Daníel og Gísli Örn voru ekki með og þá meiddist Jóhann Erlings strax á 3 mín. leiksins, þannig að alls vantaði 4 leikmenn í liðið að þessu sinni. Það kom ekki að sök þar sem aðrir leikmenn áttu góðan dag og ljóst að breiddin er mjög góð í flokknum.

Eftir rólega byrjun opnaðist leikurinn þó nokkuð. Staðan breyttist úr 4-7 þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður í 11-14 í hléinu. Sóknarleikur okkar stráka var fínn og varnarleikurinn á köflum frábær. Í upphafi síðari hálfleiks náðu strákarnir eins svo oft áður í vetur frábærum 10 mín. kafla og breyttu stöðunni í 14-21. Þá meiddist Hjörtur en hann fékk skurð á augnbrúnina og varð að yfirgefa völlinn. Við það kom smá hökt í leik liðsins og Valsmenn minnkuðu muninn í 20-23. Þá stigu strákarnir bara aftur á bensíngjöfina og breyttu stöðunni aftur í 23-29 þegar 5 mín. voru eftir. Þeir unnu síðan sanngjarnan sigur 26-30.

Þar með luku strákarnir deildarkeppninni með miklum glæsibrag. Þeir hafa spilað 23 leiki í öllum keppnum og hafa unnið 20 þeirra, gert 1 jafntefli og tapað aðeins 2. Markatalan er ótrúleg eða 152 mörk í plús í öllum keppnum.

Þeir hófu veturinn í forkeppni og unnu þar báða leikina og voru með 25 mörk í plús. Í bikarkeppninni unnu þeir 2 leiki en töpuðu síðan í undanúrslitum með 1 marki í hörkuleik fyrir Fram. Markatalan í bikarkeppninni var 12 mörk í plús. Í deildarkeppninni unnu þeir 16 leiki, gerðu 1 jafntefli og töpuðu aðeins 1 leik. Markatalan í deildinni var 115 mörk í plús. Þess má geta að þeir unnu ALLA útileikina í deildarkeppninni og það eitt er út af fyrir sig mjög erfitt verkefni að klára.

Ótrúlega góður árangur það sem af er vetri...
... til hamingju strákar.

Framundan er svo nýtt mót. Úrslitakeppnin um Íslandsmeistaratitilinn sjálfan. Strákarnir hafa tryggt sér heimvöllinn eins langt og hægt er að hafa hann í þeirri keppni. Hins vegar hjálpar árangur vetrarins að öðru leiti þeim ekkert þegar í þá keppni er komið. Þeir þurfa að undirbúa sig fyrir nýtt mót og finna hungrið í meira. Páskarnir eru því kjörið tækifæri til þess að hvíla sig og undirbúa nýja atlögu að næsta bikar.

Áfram Selfoss