Sigur í síðasta deildarleiknum

Vilius Rasimas
Vilius Rasimas

Selfyssingar enduðu í 4. sæti Olísdeildar karla í handbolta eftir sigur á Gróttu í gær í síðasta leik sínum í deildinni á þessu tímabili.

Leikurinn gegn Gróttu var í járnum framan af.  Selfyssingar náðu yfirhöndinni um miðbik fyrri hálfleiks en Grótta gerði gott áhlaup á lokamínútunum og staðan 13-13 í hálfleik.  Selfyssingar voru sterkari í seinni hálfleik, þar sem þeir spiluðu fína vörn og áttu góðar sóknir. Gestirnir náðu fljótt frumkvæðinu, munurinn jókst hægt og bítandi og á lokakaflanum náðu ríkjandi Íslandsmeistararnir að slíta sig endanlega frá heimamönnum, lokatölur 23-27.

Mörk Selfoss: Atli Ævar Ingólfsson 6, Hergeir Grímsson 6/2. Ragnar Jóhannsson 4, Alexander Már Egan 4, Einar Sverrisson 4, Nökkvi Dan Elliðason 2 og Gunnar Flosi Grétarsson 1.

Varin skot: Vilius Rasimas 18/1 (45%).

Í gærkvöld var lokaumferð Olísdeildarinnar leikin og að henni lokinni ljóst að lið Selfoss endar í 4. sæti.  Selfyssinga bíður áhugavert einvígi við lærisveina Patreks Jóhannessonar í Stjörnunni. Einvígið hefst í Garðabænum á þriðjudag og fer síðari leikurinn fram í Heðsluhöllinni á föstudag. Leiknir verða tveir leikir og mun samanlögð markatala úr þeim ráða úrslitum.


Mynd: Vilius Rasimas varði vel í markinu.
Umf. Selfoss / SÁ