Silfur og brons á Evrópumótinu

EM Team Gym Selfoss 2014 1
EM Team Gym Selfoss 2014 1

Evrópumótinu í hópfimleikum lauk á laugardaginn en mótið var haldið í Laugardalshöll 15.-18. október. Selfyssingar áttu sína fulltrúa í landsliðunum og stóðu þau sig mjög vel svo eftir var tekið.

Kvennalið Íslands endaði í öðru sæti eftir mjög harða keppni við lið Svía en bæði lið voru afburðargóð og gat keppnin farið á hvern veginn sem er. Lið Svía rétt marði sigur en lið íslensku stelpnanna hlaut þó hæstu einkunn í dansi á mótinu enda var dansinn með eindæmum samhæfður og útgeislunin mjög mikil. Í stúkunni voru áhorfendur með gæsahúð og tár á einstaka hvarma af hrifningu. Okkar fulltrúi á gólfinu var Eva Grímsdóttir og skilaði hún sínu hlutverki afburðavel.

Blandað lið fullorðina endaði í fimmta sæti eftir ágætis dag en eftir undanúrslit voru þau í fjórða sæti. Ekki gekk allt upp á laugardeginum og enduðu þau í fimmta sæti á eftir liði Frakka. Okkar fulltrúi á gólfinu var Hugrún Hlín Gunnarsdóttir og átti hún mjög gott mót og skilaði öllu sínu með glæsibrag.

Blandað lið unglinga hafnaði í þriðja sæti eftir mjög harða keppni og var munurinn á öðru og þriðja sæti nánast enginn eða innan við hálft stig. Þau áttu mjög fína keppni og söfnuðu mikilvægri reynslu í farteskið fyrir komandi ár enda allt unglingar 16 ára og yngri í liðinu. Okkar fulltrúar voru Alma Rún Baldursdóttir, Eysteinn Máni Oddsson, Konráð Oddgeir Jóhannsson og Rikharð Atli Oddsson. Þau stóðu sig öll mjög vel og eru ánægð með bronsið sitt.

Tanja Birgisdóttir var fulltrúi okkar í þjálfarateyminu og var þetta hennar fyrsta landsliðsverkefni. Henni fórst þetta hlutverk mjög vel úr hendi og er hún rétt að byrja á glæstum þjálfaraferli.

Okkar fulltrúi meðal dómara var Olga Bjarnadóttir en hún var yfirdómari á dýnu í karlaflokki fullorðina og unglinga. Eins var Olga í undibúningsnefnd mótsins.

Selfyssingar áttu einnig fjölda sjálfboðaliða á mótinu en alls komu rúmega 1.500 starfsmenn að mótinu með einum eða öðrum hætti. Þeir fá hér þakklæti fyrir aðstoðina við framkvæmd mótsins.

Fimleikafólkið var heiðrað og hyllt í sérstakri móttöku á vegum Fimleikadeildar Umf. Selfoss í Baulu á mánudagskvöldið. Þóra Þórarinsdóttir, formaður fimleikadeildarinnar, Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar og Guðmundur Kr. Jónsson, formaður Umf. Selfoss fluttu stutt ávörp og óskuðu þessu glæsilega íþróttafólki til hamingju með árangurinn.

---

F.v. Konráð Oddgeir Jóhannsson, Aron Bragason, Rikharð Atli Oddsson, Eysteinn Máni Oddsson, Nadía Björt Hafsteinsdóttir, Rakel Nathalie Kristinsdóttir, Eva Grímsdóttir, Hugrún Hlín Gunnarsdóttir, Alma Rún Baldursdóttir, Tanja Birgisdóttir og Þóra Þórarinsdóttir formaður.

Mynd: Umf. Selfoss/Inga Heiða Heimisdóttir