Stór fimleikahelgi að baki

Um helgina kepptu 5 lið frá fimleikadeild Selfoss á GK móti í hópfimleikum og Mótaröð 2. 

3. flokkur A og B kepptu á GK móti og áttu þar góða keppnisdaga.
Bæði liðin lentu í 4. sæti í sinni deild og var 3. flokkur A aðeins 0,25 stigum frá bronsinu.
Það mátti sjá miklar framfarir hjá liðunum og við erum spennt að sjá þau keppa á Bikarmóti Fimleikasambandsins sem fer fram síðar í mánuðinum.

Næst á sviðið voru meistaraflokkur og 1. flokkur fimleikadeildarinnar á Mótaröð 2. Mótaröðin er 3 mót yfir veturinn þar sem keppt er í mýkri lendingu en vaninn er og keppendur mega vera fleiri í hverri umferð en á hefðbundnum mótum hjá Fimleikasambandinu. Á mótinu eru þátttakendur 14 ára og eldri en ekki er skipt nánar niður eftir aldri og því keppa meistaraflokkar og 1. flokkar við hverja aðra. Á mótunum safna liðin safna sér stigum fyrir árangurinn sem þau ná og veitt eru verðlaun í lok vetrarins. Meistaraflokkur Selfoss varð í 3. sæti í heildina og á dýnu og trampólíni, frábær árangur hjá liði sem er í stöðugri vinnu og leggur mikið á sig. 

1. flokkur átti góðan keppnisdag þar sem að þær prufuðu ný stökk og undirbjuggu sig fyrir Bikarmótið í lok mánaðar, sem er jafnframt úrtökumót fyrir Norðurlandamót í hópfimleikum sem fer fram í Svíþjóð í apríl. Það hefur því verið mikil vinna síðustu vikur hjá þeim í undirbúningi fyrir það og GK-mótið var liður í þeim undirbúningi. Þær höfnuðu í 7. sæti samanlagt og í 4. sæti fyrir gólfæfingar. 
Nú hefst fínpússun fyrir Bikarmót, skemmtileg og  krefjandi vinna hjá efnilegu liði sem eftir er tekið.

Síðast en ekki síst var lið frá 2. flokki mix sem keppti á sunnudeginum. Því miður voru þau eina mixliðið í deildinni og samkeppnin því lítil en þau létu það ekki á sig fá, lögðu sig öll vel fram og skiluðu flottum æfingum á gólfi og stökkáhöldunum. 

Heilt yfir var mikil ánægja hjá Selfoss liðunum eftir helgina, þar sem gleðin var í fyrirrúmi og liðsheildin var mikil. Við erum mjög stolt af þessum flottu, efnilegu iðkendum okkar.