Súrsætur sigur gegn Azoty-Puławy

ElliMotM2
ElliMotM2

Í gærkvöld fór fram leikur Selfoss og KS Azoty-Puławy frá Póllandi, en þetta var síðari leikur 3. umferðar Evrópukepnni félagsliða.  Leiknum lyktaði með eins marks sigri strákanna okkar, 28-27.  Það dugði þó ekki til þar sem fyrri leikurinn tapaðist með 7 mörkum og Selfoss því fallið úr leik í Evrópukeppninni í vetur.

Bæði lið fóru varfærnislega af stað og ekki var mikið skorað fyrstu 20 mínútur.  Liðin skiptust á að taka forustu, en munurinn varð þó aldrei meiri en 2 mörk í fyrri hálfleik.  Staðan að honum loknum jöfn, 13-13.

Í upphafi síðari hálfleiks gerðu svo strákarnir okkar alvöru áhlaup á gestina.  Selfoss náði fjögurra marka mun, 18-14, á 37. mínútu og hefðu getað komist í fimm þegar Sverrir Pálsson var óheppinn og steig á línu þegar hann skoraði úr hraðaupphlaupi.  Við þetta vöknuðu gestirnir og stigu á díselgjöfina og á næstu 10 mínútum náðu þeir að jafna leikinn aftur.  Þar með var það orðið nokkuð ljóst hvort liðið kæmist áfram í riðlakeppnina.  Seinustu 10 mínútur leiksins voru í aðeins meira jafnvægi og aðeins barist upp á heiðurinn, að ná að verja í það minnsta heimavöllinn.  Það gekk og landaði Selfossliðið að lokum sigri gegn fyrnasterkum andstæðing, 28-27.

Selfoss er því, eins og áður segir, fallið úr Evrópukepnninni þennan veturinn.

Mörk Selfoss: Elvar Örn Jónsson 10, Árni Steinn Steinþórsson 8, Einar Sverrisson 4, Atli Ævar Ingólfsson 3, Guðjón Baldur Ómarsson 3, Hergeir Grímsson 2, Alexander Már Egan 1.

Varin skot: Pawel Kiepulski 8 (27%) og Sölvi Ólafsson 4 (40%).

Nánar er fjallað um leikinn á , Sunnlenska.is og Mbl.is og visir.is .

Næst tekur við áframhaldandi törn í Olísdeildinni hjá strákunum.  Næstu leikir eru á miðvikudag kl 19:30, útileikur gegn Gróttu og á Sunnudag kl. 20:00, heimaleikur gegn Stjörnunni.
____________________________________

Mynd: Elvar Örn átti góðan dag og var markahæstur með 10 mörk.

Umf. Selfoss / Inga Heiða