Súrt tap

Andri Már
Andri Már

Selfyssingar töpuðu fyrir Víkingum á föstudaginn 27-24. Leikurinn var jafn og spennandi og jafnt á tölum þangað til í lok leiks en Selfyssingar voru 11-12 yfir í hálfleik. Þegar um átta mínútur voru eftir af leiknum náðu Víkingar góðum kafla og náðu forystu eftir góð hraðupphlaup sinna manna. Súrt tap en svona er handboltinn, staðan er fljót að breytast og leikurinn er ekki búinn fyrr en flautað er af.

Lið Selfoss hefur verið að spila vel undanfarið. Það er góður stígandi í liðinu og flestir leikmenn heilir sem lofar góðu fyrir umspilið sem hefst strax eftir páska en nokkuð hefur verið um meiðsli í vetur. Í leiknum á móti Víkingum má segja að það hafi þó vantað tvo leikmenn. Egill var fjarverandi vegna veikinda og Hörður Másson fékk góða byltu í upphafi leiks, þegar ýtt var við honum í loftinu, og kom hann ekki inná aftur fyrr en í seinni hálfleik og þá aðeins í stuttan tíma. Það var samróma álit manna að brotið á Herði hafi verðskuldað rautt spjald en aðeins var dæmd tveggja mínútna brottvísun.

Markahæstur var Andri Már með 5 mörk, Matthías Örn og Sverrir Pálsson 4 mörk hvor, Ómar Vignir 3 mörk, Alexander Egan, Hergeir Grímsson og Guðjón Ágústsson allir með 2 mörk og Hörður Másson og Jóhann Erlingsson með 1 mark hvor.

Síðasti leikurinn í deildinni, áður en umspilið hefst, er á móti Þrótti, miðvikudaginn 1. apríl klukkan 19:30 í íþróttahúsi Vallaskóla. Hvetjum alla til að mæta á pallana og styðja strákana til sigurs.

Mynd: Andri Már Sveinsson markahæstur í liði Selfoss á móti Víkingum /Jóhannes Ásgeir Eiríksson