Þrjú héraðsmet á Selfossleikunum

Frjálsar - Helga, Adda og Benedikt
Frjálsar - Helga, Adda og Benedikt

Þrjú héraðsmet voru sett á Selfossleikunum í frjálsum íþróttum sem fram fóru á Selfossi þann 17. ágúst síðastliðinn.

Metin féllu öll í 300 m grindahlaupi en Helga Fjóla Erlendsdóttir, Garpi, sigraði í flokki 12 ára stúlkna á 53,97 sek og í flokki 11 ára stúlkna sigraði Adda Sóley Sæland, Selfossi, á 61,04 sek.

Þær bættu þar með níu ára gömul met Helgu Margrétar Óskarsdóttur, Selfossi, sem átti metin í báðum flokkunum. Helga Fjóla stórbætti metið í 12 ára flokknum, um 8,82 sek og Adda Sóley bætti metið í 11 ára flokknum um 1,75 sek.

Þá sigraði Benedikt Hrafn Guðmundsson, Selfossi, í flokki 11 ára pilta á 66,95 sek en hann er fyrsti pilturinn á sambandssvæði HSK til þess að setja tíma í 300 m grindahlaupi í þessum aldursflokki.

Utanhússtímabilinu í frjálsum lýkur senn og eru Selfossleikarnir hluti af uppskeruhátíð 11-14 ára iðkenda á Selfossi. Á mótinu var einnig keppt í sleggjukasti og þrístökki.