Titill á Selfoss eftir sigur á Víkingi í úrslitaleik

Lið Víkings hefur aðeins tapað 2 leikjum í vetur, einum í Bikarkeppni HSÍ gegn okkur í Selfossi og svo bara einum í deildinni, en þær unnu hana með yfirburðum. Liðið er skipað leikmönnum sem hafa langa reynslu af afrekshandbolta. Það spilar góða vörn, er með frábæran markmann og keyrir hraðaupphlaupin grimmt. Í sókninni spila þær skemmtilegan og oft vel útfærðan bolta og hafa nokkrar hörkuskyttur sem geta skorað fyrir utan. Þá má ekki gleyma því að þær eru mjög reynslumiklar.

Það var augljóst í byrjun leiksins að okkar stelpur voru mjög stressaðar því að þær náðu hvorki að spila vörn né sókn. Þær voru óákveðnar, hikandi og augljóslega smeykar við Víkingsliðið. Staðan eftir 10 mín. var orðin 6-2 Víkingi í vil. Þá skipti Selfoss nánast öllu byrjunarliðinu útaf og stelpurnar sem komu af bekknum komu inná með meiri kraft og baráttu. Þær náðu að halda í horfinu og 10 mín. síðar var staðan 6-10. Þá voru stelpurnar sem byrjuðu inná aðeins búnar að ná andanum og sigrast á stressinu og komu inná hver á fætur annarri. Í kjölfarið lifnaði heldur betur yfir Selfoss liðinu og staðan í hálfleik var 14-10. Stelpurnar voru því búnar að halda jöfnu í 20 mín. og fóru því til hálfleiks með góða von í farteskinu.

Í upphafi síðari hálfleiks sprungu þær svo út. Vörn og markvarsla sem hefur verið aðalsmerki liðsins í vetur hrökk í gang og á aðeins 20 mín. voru stelpurnar komnar yfir 20-23. Þá tóku Víkingar leikhlé og það var ekki að sökum að spyrja. Öll reynsla þeirra kom bersýnilega í ljós því síðustu 10 mín. leiksins fóru 4-1 fyrir Víking. Í leikjum vetrarins gegn Víkingi náðu þær að vinna báða deildarleikina einmitt á lokakaflanum þegar þær notuðu reynslu sína til sigurs. Í þetta skipti náðu stelpurnar okkar að lifa áhlaupið af og tryggja sér annað tækifæri með framlengingu. Reyndar fékk Selfoss tvö tækifæri í lokin til þess að skora sigurmarkið en tókst ekki. Víkingar voru einum leikmanni færri en bæði skot Selfoss fóru framhjá. Niðurstaðan jafntefli 24-24 og framlenging framundan.

Selfoss skoraði fyrsta markið í framlengingunni og náði því aftur frumkvæðinu í leiknum. Að loknum fyrri hluta framlengingarinnar var staðan 26-27 fyrir Selfoss og Víkingar byrjuðu í sókn í síðari hlutanum. Þrátt fyrir æsilega baráttu og vilja leikmanna í báðum liðum tókst hvorugu liðinu að skora í síðari hlutanum þrátt fyrir góð færi enda markmennn liðanna að verja mjög vel í framlengingunni. Niðurstaðan varð því ótrúlega sætur sigur 26-27 fyrir Selfoss og fyrsti titill í mjög langan tíma í meistaraflokki kvenna kominn á Selfoss.

Frábær endir á góðu tímabili hjá stelpunum. Liðið náði vel saman og liðshelild og leikgleði einkenndi hópinn. Eldri leikmennirnir okkar, þær Guðrún og Ásdís, höfðu gríðarlega góð áhrif á hópinn og voru mjög mikilvægar liðinu. Þá var mjög mikil hjálp í Eddu þegar hún gat verið með. Yngri stelpurnar stóðu sig mjög vel í vetur og tóku miklum framförum og koma til með að búa vel að þessum vetri í framhaldinu. Þá má ekki gleyma "ungunum" okkar sem fengu gríðarlega reynslu í vetur sem á eftir að skila sér margfalt til baka á næstu árum. Alls spiluðu þrír leikmenn úr 4 flokki annarð lagið með liðinu í vetur og leystu þær það allar mjög vel.

Helsta tölfræði í gær
Hanna 13 mörk, 8 stoðs., 1 fengið víti og 12 brotin fríköst
Tinna 5 mörk, 1 varið skot og 11 brotin fríköst
Thelma Sif  4 mörk, 3 varin skot og 4 brotin fríköst
Þuríður 3 mörk og 1 brotið fríkast
Hildur 1 mark, 1 stoðs. og 3 brotin fríköst
Guðrún 1 mark, 1 fengið víti og 1 brotið fríkast 
Edda 3 stoðsendingar, 4 unnir boltar og 2 brotin fríköst
Ásdís varði 17 skot þar af 1 víti (40%)

Frábært stelpur til hamingju og áfram Selfoss.