Við hækkum ekki

Við hækkum ekki
Við hækkum ekki

Í bréfi sem ASÍ sendi á ungmenna- og íþróttafélög í seinustu viku kemur fram að ein helsta forsenda þeirra kjarasamninga sem gerðir voru þann 21. desember síðastliðinn er að verðbólga verði lág þannig að tryggja megi stöðugleika og aukinn kaupmátt. Um þessa áherslur var samstaða meðal samningaaðila og stjórnvöld tóku undir mikilvægi þeirra. Eigi þetta að ganga eftir þurfa fyrirtæki á öllum sviðum atvinnulífsins, félagasamtök, ríki og sveitarfélög að axla ábyrgð og sýna samstöðu með því að halda aftur af verðhækkunum.

Allar deildir Umf. Selfoss taka þátt í samstöðunni og axla ábyrgð þar sem engar hækkarnir verða á æfinga- og þátttökugjöldum í starfsemi okkar nú í upphafi árs. Raunar hækkuðu æfingagjöld fæstra deilda hjá okkur síðastliðið haust þrátt fyrir að starfið hjá okkur sé metnaðarfyllra með hverju árinu. Þá sýnir könnun ASÍ frá í haust að ódýrast er að æfa á Selfossi í samanburði við sambærileg ungmenna- og íþróttafélög hvað varðar stærð og metnað.

Af framangreindu má ljóst vera að hjá Ungmennafélagi Selfoss er unnið kraftmikið starf sem skilar ótvíræðum hagnaði í samfélagið okkar. Þar leggjast allir á eitt: Aðalstjórn, stjórnir deilda, starfsfólk, þjálfarar, iðkendur, foreldrar og sjálfboðaliðar sem eru ómetanlegir í starfi okkar.