Viltu fara í lýðháskóla í Danmörku?

Frestur til að sækja um ferða- og dvalarstyrk frá UMFÍ vegna náms við lýðháskóla í Danmörku námsárið 2016-2017 er til 1. september næstkomandi. Námið við lýðháskóla í Danmörku er mislangt en flestir frá Íslandi eru í 12 vikur eða lengur.

Flestir hér á landi sem fara í danska lýðháskóla gera það að loknu framhaldsnámi. Markmiðið með dvöl í lýðháskóla er að víkka sjóndeildarhring sinn og að kynnast nýju tungumáli og menningu, auka færni sína og þekkingu á völdu sviði í gegnum óformlegt nám og styrkja leiðtogahæfileika sína.

Kröfurnar til að hljóta styrk til námsdvalar í lýðháskóla ytra er þríþættur. Nemendur þurfa að senda UMFÍ upplýsingar um það hvaða væntingar nemendur hafa til námsins. Formið getur verið með ýmsu móti, hvort heldur er með skriflegri skýrslu eða með öðru hætti. Nemendurnir þurfa jafnframt að skila verkefni um dvölina og er úrvinnslan valfrjáls. Undir lok dvalarinnar þurfa nemendur svo að skila lokaskýrslu um námið.