3.flokkur í Granollers Cup

3fl_Granolles
3fl_Granolles

Drengirnir í þriðja flokki karla tóku þátt í Granollers Cup sem fram fór í Granolla, lítilli borg í næsta nágrenni Barcelona á Spáni í síðustu viku. Strákarnir duttu út í 16-liða úrslitum mótsins eftir tap gegn sterku liði BM. Villa Aranda (sem fór alla leið í úrslitaleik á mótinu).

 

Strákarnir náðu sigri í fyrstu tveimur leikjunum gegn liðum H. Sant Quirze og Balommano Sueca. Fyrri leikurinn var spilaður utandyra á malbikuðum velli og seinni leikurinn í óloftræstu íþróttahúsi. Í þriðja leik mótsins töpuðu þeir gegn liði Almeria 18-13, leikurinn fór fram í íþróttahöll sem notuð var á Ólympíuleikunum árið 1992. 

 

Þeir mættu síðan liði H.Esplugues, en strætókerfið sveik strákanna og náðu þeir að komast rétt fyrir leik. Leikurinn leystist upp í mikinn hasar þar sem rautt spjald fór á loft. Þeir náðu síðan að tryggja sig í 16-liða úrslit með sigri í lokaleik riðlakeppninnar. Sá leikur leystist einnig upp í vitleysu í lokin þar sem allt sauð upp úr og áhorfendur ruddust inn á völlinn að leikmanni Selfoss sem fékk svo rautt spjald fyrir að fagna markinu upp í stúku. Mikill hasar var á vellinum í kjölfarið og gerði þjálfari hins liðsins sér ferð yfir á bekkinn til okkar til að rífast við Jósef, aðsoðarþjálfara Selfoss svo lá við handalögmálum þar á milli, svo mikill var hitinn. Liðið hélt sér svo til hlés þar til allir aðrir voru farnir út.

 

Liðið féll svo út í 16-liða úrslium eftir tveggja marka tap gegn öflugu liði BM. Villa Aranda. Mótið var mikil skemmtun og fer í reynslubankann hjá strákunum.