97 með öruggan sigur í fyrsta heimaleik

1997 liðið  í 4.fl. karla mætti Þrótti í fyrsta heimaleik sínum á nýja parketinu í íþróttahúsi Sólvallaskóla. Selfoss strákarnir eru greinilega staðráðnir í að gera góða hluti á heimavelli í vetur en þeir voru miklu betri í leiknum og unnu 11 marka sigur, 31-20. Fjömargir áhorfendur horfðu á leikinn sem var strax á eftir meistaraflokksleiknum síðastliðinn föstudag.

Frá fyrstu mínútu var augljóst hvort liðið ætlaði sér að vinna leikinn. Selfoss skoraði fyrstu 5 mörk leiksins og var ekki aftur snúið eftir það. Mest náði liðið 7 marka forskoti í fyrri hálfleik og staðan 17-10 í hálfleik. Í seinni hálfleik náði Selfoss að komast 12 mörkum yfir en lokatölur urðu svo 31-20 sigur.

Varnarleikur Selfyssinga var frábær í leiknum og bæting frá fyrsta leik liðsins í deild gegn HK. Samvinna leikmanna og færslan var orðin enn betri og skilaði það sér í því að liðið fékk ekki nema 20 mörk á sig. Sóknarleikurinn gekk vel og fékk liðið góð færi í hverri einustu sókn.

Hergeir Grímsson bar af í Selfoss liðinu í leiknum og var góður á báðum endum vallarins. Hann og Richard Sæþór voru bestir í vörninni hjá Selfossi og fékk liðið einnig frábæra markvörslu frá Oliver og Aroni. Í sókninni voru fjölmargir að skila til liðsins. Magnús Øder og Gísli Frank áttu mjög góðan leik en einnig gerðu Elvar Örn og Alexander góða hluti til að taka einhverja út úr flottri liðsheild.