’98 liðið fór á kostum í síðari hálfleik

Strákarnir í 1998 liðinu í 4. flokki unnu heldur betur góðan sigur á Stjörnunni um helgina. Eftir að útlitið hafi verið dökkt í byrjun leiks fóru strákarnir á kostum í síðari hálfleik og sigruðu 30-27.

Stjarnan leiddi framan af. Í fyrri hálfleik var munurinn yfirleitt á bilinu 2-4 mörk en Selfoss réð illa við skyttur Stjörnunnar. Hálfleikstölur voru 10-14 og útlitið ekki sérlega gott.

Strákarnir tóku sig sig heldur betur saman í andlitinu í hálfleik og voru frábærir í seinni hálfleik. Stjarnan skoraði reyndar fyrsta mark hálfleiksins. Eftir það var hálfleikurinn algjörlega eign Selfoss en þeir unnu restina af honum með 8 mörkum. Það sem gerðist var að vörnin styrktist mikið og markvarslan frábær. Í sókninni stigu svo gríðarlega margir leikmenn upp. Á meðan Stjarnan reiddi sig á tvo leikmenn voru allar 6 stöðurnar hjá Selfossi að skila miklu. Það skilaði sér í 30-27 sigri.

Hreint magnaður sigur hjá strákunum sem geta ýmislegt þegar sá gállinn er á þeim. Það býr nefnilega mikið í þessum strákum og þegar stemmningin og baráttan er líkt og í seinni hálfleik í þessum leik þá er erfitt að stöðva þá.