Anna María framlengir til tveggja ára

annamaríaframlengir
annamaríaframlengir

Anna María Friðgeirsdóttir, fyrirliði kvennaliðs Selfoss, hefur framlengt samning sinn við knattspyrnudeild Selfoss til tveggja ára.

 

Anna María, sem er 26 ára gömul, er leikjahæsta knattspyrnukona félagsins frá upphafi en hún hefur leikið 215 meistaraflokksleiki fyrir Selfoss frá árinu 2009, þar af 80 í Pepsi-deildinni. 

 

Anna María tók við fyrirliðabandinu á Selfossi á síðasta keppnistímabili þegar Selfoss lék í 1. deildinni og tryggði sér aftur sæti í deild þeirra bestu. Hún spilaði alla átján leiki liðsins og var valin í úrvalslið ársins hjá fotbolti.net.

 

„Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að Anna María hafi framlengt samninginn sinn um tvö ár. Hún er einn af stóru póstunum í þessu liði okkar og heldur hópnum saman. Hún hefur mikla reynslu úr efstu deild og það er frábært fyrir félagið að njóta krafta hennar áfram,“ segir Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Selfoss.

 

 

Anna María og Einar Karl Þórhallsson, ritari knattspyrnudeildarinnar, handsala samninginn. Ljósmynd/UMFS