Einvígi við Fjölni um sæti í Olís-deildinni

Handbolti - Alexander Már Egan
Handbolti - Alexander Már Egan

Það verða Selfoss eða Fjölnir sem munu leika í Olís-deildinni á næsta tímabili, en liðin unnu bæði einvígi sín 2-0 í umspili um laust sæti í efstu deild. Selfyssingar mættu Þrótturum í undanúrslitum.

Selfoss vann fyrri leikinn á heimavelli 27-16 eftir að hafa leitt í hálfleik 13-7. Eins og tölurnar gefa til kynna voru heimamenn ávallt skrefinu á undan og vel það. Varnarleikur Selfyssinga var til fyrirmyndar og varði Birkir Fannar Bragason eins og berserkur í markinu auk þess sem Helgi Hlynsson kom inn á og varði fjögur víti í leiknum.

Umfjöllun Sunnlenska.is um leikinn „Varnarleikurinn var frábær".

Alexander Már Egan var markahæstur með 6 mörk, Guðjón Ágústsson skoraði 5, Elvar Örn Jónsson og Teitur Örn Einarsson 4, Hergeir Grímsson, Árni Geir Hilmarsson og Andri Már Sveinsson 2 og þeir Örn Þrastarson og Atli Kristinsson skoruðu 1 mark hvor. Birkir Fannar Bragason varði 15 skot og Helgi Hlynsson 5.

Síðari leikurinn, sem fram fór á heimavelli Þróttara, vannst einnig örugglega 25-33 en staðan í hálfleik var 12-11 fyrir heimamenn. Selfyssingar kafsigldu Þróttara í síðari hálfleik með öguðum og skipulögðum leik.

Stutta umfjöllun um leikinn má finna á vefnum Vísir.is.

Elvar Örn Jónsson skoraði 7 mörk, Teitur Örn Einarsson 6, Andri Már Sveinsson 5, Eyvindur Hrannar Gunnarsson 4, Þórir Ólafsson 3, Guðjón Ágústsson, Hergeir Grímsson og Atli Kristinsson 2 og Árni Guðmundsson og Rúnar Hjálmarsson 1 mark hvor.

Umfjöllun FimmEinn.is um úrslitaeinvígið sem er framundan.

Fjölnir og Selfoss mætast í úrslitarimmunni um sæti í efstu deild á næstu leiktíð, en vinna þarf þrjá leiki í rimmunni til þess að sigra hana. Fyrsti leikur liðanna fer fram á heimavelli Fjölnis sunnudaginn 24. apríl kl. 19:30 en því næst taka Selfyssingar á móti Fjölni þriðjudaginn 26. apríl kl. 19:30.

---

Alexander Már var markahæstur í fyrri leiknum á Selfossi.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/Jóhannes Ásgeir Eiríksson