Sætur sigur í háspennuleik!

Byrjunarliðið
Byrjunarliðið

Það viðraði loksins vel á JÁVERK-vellinum þegar Selfoss mætti Þrótt R. í Lengjudeildinni í gærkvöldi. Fjölmenni lagði leið sína á völlinn fylgdist með skemmtilegum knattspyrnuleik.

Selfyssingar byrjuðu leikinn mun betur og fóru fljótlega að herja á mark gestanna. Eitthvað varð undan að láta en Adrian Sanchez kom heimamönnum yfir eftir tæplega níu mínútna leik þegar hann setti boltann í markið af stuttu færi eftir langt innkast.

Áfram sóttu Selfyssingar og annað markið kom stuttu síðar þegar Aron Fannar slapp inn fyrir vörn gestanna og setti boltann í stöngina, þangað barst hann út í teig og á einhvern ótrúlegan hátt skoraði varnarmaður Þróttar sjálfsmark eftir að hafa fengið boltann í sig frá öðrum leikmanni Þróttar, ansi klaufalegt. Eftir þetta mark kviknaði aðeins í gestunum og áttu þeir nokkur hálffæri áður en flautað var til hálfleiks. 2-0 eftir fyrri hálfleik.

Selfyssingar urðu fyrir áfalli í upphafi síðari hálfleiks þegar Oskar Wasilewski fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt. Dean gerði strax breytingar á liðinu til þess að bregðast við stöðunni.

Þróttur sótti í sig veðrið og lágu þungt á Selfyssingum síðasta hálftímann. Liðsmuninn nýttu þeir sér þó ekki fyrr en á 86. mínútu og minnkuðu muninn. Leikmenn Selfyssinga börðust eins og ljón síðustu mínúturnar, köstuðu sér fyrir alla bolta og öskruðu hvorn annan í gegnum hjallann.

Það var ljúft þegar dómari leiksins flautaði leikinn af og sigurinn þar með í höfn. Við þökkum okkar frábæra fólki fyrir komuna á völlinn og þá sérstaklega yngsta hópnum sem öskraði úr sér lungun síðustu mínúturnar og fagnaði síðan með okkur inni í klefa eftir leik. TAKK!

Næsti leikur liðsins er næstkomandi fimmtudagskvöld í Njarðvík, sjáumst þar!