Fjölmenni á aðalfundi knattspyrnudeildar

Fjölmenni var á aðalfundi Knattspyrnudeildar Umf. Selfoss sem haldinn var  Tíbrá fimmtudaginn 27. nóvember. Stjórn deildarinnar var endurkjörin á fundinum og er það til marks um þann stöðugleika sem deildin hefur náð á seinustu árum.

Óskar Sigurðsson, formaður knattspyrnudeildar, flutti skýrslu stjórnar og lýsti því daglega starfi sem fram fer á vettvangi deildarinnar þar sem meginþunginn er yfirleitt sá sami, þ.e. að afla tekna fyrir rekstur deildarinnar. Verulegar breytingar hafa orðið síðustu ár í því umhverfi sem skapast fyrst og fremst  vegna fjarveru karlaliðsins úr úrvalsdeild og því tekjutapi sem því fylgir. Lýsti hann í nokkrum orðum þeirri miklu vinnu sem liggur að baki öllu þessu starfi og kallaði eftir meiri þátttöku allra við það. Að lokum kynnti hann markmið næstu ára og ber þar hæst að stefnt er að því að báðir meistaraflokkar Selfoss spili í efstu deild. Það er nauðsyn fyrir allan rekstur og umgjörð deildarinnar.

Sveinbjörn Másson, framkvæmdastjóri deildarinnar, kynnti reikninga knattspyrnudeildar fyrir fyrstu 10 mánuði ársins þar sem aðalfundir eru í nóvember ár hvert og ekki er því um endanlega mynd af rekstri ársins að ræða.

Tekjurnar á árinu 2014 eru um 38,7 milljónir og lækka um  25% milli ára. Gjöld eru um 43 milljónir og lækka einnig milli ára eða um 28% Halli er því á rekstri deildarinnar upp á um 4.5 milljónir sem er nærri áætlunum en ennþá vantar nokkra stóra pósta í tekjuhliðina sem koma inn á þessu ári.

Sveinbjörn fór einnig yfir reikninga unglingaráðs. Miðað við niðurstöður þar er reksturinn í nokkuð góðu jafnvægi þó lítilsháttar tap sé nú í fyrsta sinn um langan tíma, eða 589 þúsund. Stór hluti skýringarinnar er að tekjur af mótum minnka um 26%.

Í fjárhagsáætlun næsta árs er markmiðið að snúa við þróun síðustu ára um tekjufall og bæta í reksturinn. Nú á að gefa í og sækja fram af enn meiri krafti og til meiri árangurs. Í því verkefni verða allir að vera  samstíga, stjórn, starfsmenn og allir aðrir sem nálægt standa, m.a. iðkendur.

Guðmundur Kr. Jónsson, formaður Umf. Selfoss, lýsti ánægju með að vera þátttakandi í þessum góða og fjölmenna fundi. Fundurinn og skýrslu stjórnar bera glöggt merki um öflugt starf. Þakkaði hann bæjaryfirvöldum samstarf og samvinnu um uppbyggingu félagssvæðisins og sagði að enn mætti bæta um betur þar, enn vantaði upp á að aðstaða væri fullkominn. Þá sagði hann hlutverk leikmanna meistaraflokkanna afar mikilvægt sem fyrirmyndir yngri iðkenda og þyrftu leikmenn flokkanna að vera meðvitaðir um það hlutverk sitt. Í því ljósi væri starf og árangur meistaraflokkanna afar mikilvægt sem eins konar efsti hluti félagsins.