Fjórar Selfossstelpur í U18 landsliði Íslands

umfs síðan
umfs síðan

Þessa stundina eru fjórar föngulegar stúlkur frá Selfossi að keppa fyrir Íslands hönd á European Open í Svíþjóð.  Stelpurnar sem allar hafa æft handbolta frá unga aldri eru svo sannarlega verðugir fulltrúar okkar Selfyssinga í U18 landsliðinu. Þær eru afsprengi hins góða starfs sem unnið hefur verið á undanförnum árum hjá Handknattleiksdeild Selfoss, starfs sem skilar okkur flestum stelpum allra félaga í landsliðshópinn. Þær eiga það allar sameiginlegt að hafa lagt hart að sér við æfingar og keppni auk þess sem þær hafa ekki lagt árar í bát þótt stöku sinnum hafi á móti blásið.

Þjálfarar landsliðsins eru Hilmar Guðlaugsson þjálfari hjá HK og Inga Fríða Tryggvadóttir sem er okkur Selfyssingum vel kunn og ekki síður stelpunum fjórum enda gerði hún, ásamt systur sinni Guðfinnu, þær allar að Íslands- og bikarmeisturum með 4. og 5. flokki og lögðu grunninn að árangri stelpnanna. Sebastian Alexandersson hefur síðan, ásamt öðru, þjálfað þær undanfarin ár í 3. flokki og meistaraflokki og byggt vel ofan á grunninn auk þess sem hann hefur gert þær að betri handboltamönnum eins og honum einum er lagið.

Siðustu þrjár vikur hafa verið annasamar hjá stelpunum, þær hafa ekið svo til daglega til Reykjavíkur og tekið þátt í landsliðsæfingum, spilað æfingaleiki og stundum stoppað í Vesturbæjarís á heimleið og kælt sig niður eða fengið sér klassískt snarl á Olís.

Á mótinu sem fram fer í Gautaborg eiga 18 þjóðir með fulltrúa sína. Íslenska landsliðið er í riðli með Rúmeníu, Austurríki, Noregi og Færeyjum. Við rennum nokkuð blint í sjóinn hvað væntingar til landsliðs okkar varðar en treystum því náttúrulega að þær verði landi og þjóð til sóma og geri aðeins betra en sitt besta. Hægt er að fylgjast með mótinu á heimasíðu mótsins.

Greinarhöfundur, eins og margir aðrir, hefur fylgst vel með uppgangi kvennaboltans á Selfossi síðustu ár og hrifist af, við hittum stelpurnar daginn sem þær fóru út og tókum smá spjall auk þess sem við fengum greiningu á hverri og einni frá valinkunnum handboltasérfræðingi sem ekki vildi láta nafns síns getið.

Þuríður Guðjónsdóttir er einstakur handboltamaður með ótrúlega hæfileika, skytta af Guðs náð sem gæti látið boltann sleikja skeytinn með blindandi skoti efst úr stúkunni. Þuríður segist hafa þær væntingar til European Open að allar leggi sig 1500% fram og aðspurð hvers vegna Selfoss á flestar stelpur í landsliðinu segir hún að það sé vegna þess að þær séu svo ótrúlega sætar, skemmtilegar og „svo erum við líka slatta góðar sko!“

Dagmar Öder Einarsdóttir er handboltadýr, best er að geyma hana inni klefa í tvo tíma fyrir leiki og hleypa henni síðan út, hún gerir alla andstæðinga brjálaða með krafti sínum og ótrúlegri spilagleði. Dagmar á sér uppáhaldsleikmenn, þeir eru Anja Edin og Jóna Margrét Ragnarsdóttir, hana dreymir um að komast á toppinn og segist vera hrikalega stolt af því að keppa fyrir Íslands hönd.

Katrín Ósk Magnúsdóttir, er mjög hæfileikaríkur markmaður með rólegt yfirbragð en ólgandi keppnisskap hið innra, les leikmenn andstæðingana eins og opna bók þegar nauðsyn krefur. Uppáhaldsleikmenn Katrínar eru Florentina Stanciu og Niklas Landin. Katrín er stolt af því að fá að spila fyrir íslenska landsliðið og ætlar að standa sig í Svíþjóð.

Elena Birgisdóttir er baráttujaxl í vörn og sókn, þeytist fram og til baka á línunni í eilífum átökum við að opna fyrir útileikmenn og skapa pláss fyrir sjálfa sig, frábær peppari sem öskrar samherja alltaf áfram sama hvað á dynur. Hún sagðist hafa ótrúlega gaman að því að vera í landsliðinu, hennar uppáhaldsleikmenn eru Heidi Løke og Inga Fríða Tryggvadóttir. Aðspurð hvers vegna Selfoss ætti flesta leikmenn í landsliðinu sagði Elena „það er svo mikill kraftur í vatninu í íþróttahúsi Vallaskóla.“

Stelpurnar vildu í lok spjalls koma á framfæri kærum þökkum til allra þeirra einstaklinga og fyrirtækja sem styrktu þær vegna þátttökunnar á Evrópumótinu, þær höfðu orð á því að hve þær væru ótrúlega ánægðar með hinar jákvæðu viðtökur sem þær fengu þegar þær söfnuðu til ferðarinnar.

Texti: Magnús Matthíasson