FRÍMÍNÚTUR - sókn gegn sleni

FRÍ logo blátt
FRÍ logo blátt

Frjálsíþróttasamband Íslands (FRÍ) hefur sókn gegn sleni með því að setja af stað nýjan hreyfingarleik í grunnskólum sem nefnist Frímínútur. Leikurinn fer í gang í vor. Markaðar verða 800 metra brautir við alla skóla á Íslandi og nemendur hvattir til að fara brautina á hverjum degi í frímínútum. Valkvætt er að ganga, skokka eða hlaupa.

Verkefnið verður unnið í samráði við skólayfirvöld og kennara um land allt. Framkvæmd á leiknum og þróun á þrautum hans mun verða  í samvinnu við íþróttakennara og Íþróttakennarafélag Íslands auk annarra aðila sem láta sig verkefnið varða.

Frímínútur er hreyfingaleikur þar sem grunnskólanemar skora sjálfa sig á hólm gegn eigin sleni með daglegri hreyfingu og útivist í löngu frímínútunum í skólanum. Leikurinn er hópeflisleikur sem bíður upp á keppni milli bekkja, skóla og árganga á landsvísu. Hver nemandi getur fengið eina íþróttastjörnu á dag með þátttöku í leiknum og styrkt þannig sinn bekk, skóla og árgang í leiknum. Allir hafa hlutverk í leiknum. Markmið hvers bekkjar er að öðlast útnefninguna íþróttastjörnubekkur og skólans að hljóta útnefninguna  íþróttastjörnuskóli.

Til að fjármagna verkefnið stendur FRÍ fyrir sölu happdrættismiða í janúar. Dregið verður í happdrættinu 7. febrúar.

Einkum verður leitað til fyrirtækja með að kaupa happdrættismiða fyrir starfsfólk sitt og styðja í leiðinni gott málefni. Fyrirtækjum verður boðið að kaupa tiltekinn fjölda miða sem samsvara Frímínútum fyrir einn skóla eða einn bekk eftir aðstæðum. Mð kaupum fyrirtækis á  happdrættismiðum gefur það samhliða stjörnukort/skráningarform fyrir einn bekk til þátttöku í leiknum.

Sett verður upp vefsíða til kynningar á verkefninu auk þess sem samfélagsmiðlar verða notaðir til að skapa stemmingu hjá þátttakendum.

Fréttatilkynning frá FRÍ