Gleði og góður árangur á Silfurleikum ÍR

Frjálsar Hópmynd
Frjálsar Hópmynd

Silfurleikar ÍR fóru fram í Laugardalshöllinni laugardaginn 21. nóvember. ÍR-ingar halda mótið til að minnast afreks Vilhjálms Einarssonar þrístökkvara sem hlaut silfurverðlaun í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melbourne í Ástralíu árið 1956.

Mótið er ætlað keppendum 17 ára og yngri og fjölmenntu iðkendur frjálsíþróttadeildar Selfoss á mótið og náðu góðum árangri. Nýtt þátttökumet var sett þar sem nærri 800 keppendur kepptu á Silfurleikunum.

Yngstu iðkendur stóðu sig vel að vanda

Yngstu börnin spreyttu sig í þrautabraut með ýmsum æfingum sem reyndu á styrk, hraða, þol og snerpu og er því góður undirbúningur fyrir tæknigreinarnir í eldri flokkum. Keppt var annars vegar í flokki 7 ára og yngri og hins vegar í flokki 8-9 ára með þrautum sem hæfðu hvorum aldurshópi. Börnin stóðu sig að vanda vel og voru til mikillar fyrirmyndar. Öll börnin fengu viðurkenningu fyrir þátttökuna.

Þrjú HSK-met í flokki 13 ára

Stór hópur 10-13 ára krakka frá Selfossi keppti á mótinu, stóð sig gríðarlega vel og bættu sinn besta árangur í flestum greinum. Athygli vakti hvað Selfoss hópurinn var öflugur og flottur og fengum við hrós fyrir.

Í flokki 10-11 ára var keppt í fjórþraut sem samanstendur af 60 metra hlaupi, 600 metra hlaupi, langstökki og kúluvarpi. Krakkarnir fengu stig fyrir hverja grein og síðan samanlagt fyrir allar fjórar greinarnar. Öll stóðu sig mjög vel og varð Hrefna Sif Jónasdóttir þriðja stigahæst af stelpunum en allir þátttakendur fengu þátttökuverðlaun.

Í flokki 12-13 ára var keppt í einstökum greinum. Þar setti okkar fólk þrjú HSK-met og vann til 13 verðlauna þ.e. 4 gullverðlauna, 5 silfurverðlauna og 4 bronsverðlauna.

Hildur Helga Einarsdóttir, 13 ára bætti HSK-metið í kúluvarpi um 19 cm þegar hún sigraði og varpaði kúlunni 13,31 m. Hún skaust þar með upp í þriðja sæti á afrekalistanum frá upphafi en þess má geta að Íslands- og HSK-metið í kúluvarpi utanhúss er 10 cm styttra en þetta kast.

Hákon Birkir Grétarsson, 13 ára keppti í sex greinum. Hann jafnaði HSK-metið í 60 metra grindahlaupi, komst á pall í öllum greinunum og bætti sig í fimm. Hann fékk gullverðlaun í 60 metrum á 8,10 sek sem er persónuleg bæting (hér eftir skammstafað PB), hástökki með 1,68 m (PB) og þrístökki með 10,40 m (PB). Silfurverðlaun fékk hann í 60 metra grind á 9,84 sek (PB) og kúluvarpi með 11,36 m og bronsverðlaun í 200 m hlaupi á 27,75 sek (PB).

Dagur Fannar Einarsson, 13 ára er á siglingu í hlaupunum og setti HSK met í 600 m hlaupi er hann varð annar á 1:47,18 mín (PB), hann varð einnig annar í 200 m hlaupi á 27,58 sek (PB) og og þriðji í 60 m hlaupi á 8,19 sek.

Valgerður Einarsdóttir, 13 ára fékk silfurverðlaun í 600 m hlaupi á 1:55,45 mín (PB). Tryggvi Þórisson, 13 ára fékk bronsverðlaun í hástökki með 1,52 m (PB). Eva María Baldursdóttir, 12 ára fékk bronsverðlaun í kúluvarpi með 9,25 m (PB).

Meistarahópur stóð sig með prýði

Níu keppendur úr Meistarahópi Selfoss kepptu á leikunum og stóðu þau sig öll með mikilli prýði. Afraksturinn varð níu verðlaun, eitt gull, þrjú silfur og fimm brons ásamt 21 persónulegri bætingu.

Í flokki 14 ára stúlkna tók Helga Margrét Óskarsdóttir verðlaun í tveimur greinum, bætti sig og varð þriðja í þeim báðum. Hún hljóp 60 m grind á 10,39 sek (PB) og stökk 9,68 m í þrístökki (PB). Katarína Sybilla Jóhannsdóttir tók bronsverðlaun í þrístökki með stökki upp á 9,44 m (PB).

Guðjón Baldur Ómarsson var verðugur fulltrúi okkar í flokki 15 ára pilta. Hann náði í verðlaun í þremur greinum og bætti sig í þeim öllum. Hann sigraði í 800 m hlaupi á 2:20,19 mín (PB). Þá varð hann þriðji í 60 m grind á 9,70 sek (PB) og kúluvarpi með 10,48 m (PB).

Í flokki 16-17 ára stúlkna varð Harpa Svansdóttir önnur í kúluvarpi með 11,22 m (PB) og þar varð Þórunn Ösp Jónasardóttir þriðja með kasti upp á 9,67 m (PB). Þórunn Ösp kom svo önnur í mark í 800 m hlaupi á 2:44,08 mín (PB).

Öll úrslit mótsins má finna á Þór - Mótaforriti Frjálsíþróttasambandsins.

ÁT/ÞI/ÓG

Frjálsar Silfurleikar ÍR Frjálsar Ólafía Sara og Álfrún Diljá Frjálsar Hópmynd Frjálsar Hrefna Sif og Thelma Karen Frjálsar Hildur Helga Frjálsar Þórunn og Harpa Frjálsar Katarína og Guðjón Baldur Frjálsar Hreimur og Jón Smári