Góðar fréttir úr fótboltanum á Selfossi

Óhætt er að segja að það séu góðar fréttir úr fótboltanum á Selfossi. Meistaraflokkur karla lagði Íslands- og bikarmeistara KR síðastliðinn sunnudag og meistaraflokkur kvenna er með tryggt sæti í Pepsideildinni næsta sumar. Þá voru þrír ungir Selfyssingar valdir landsliðshópa Íslands.

Selfoss gerði sér lítið fyrir og lagði Íslands- og bikarmeistara KR 1:0 í frábærum leik á heimavelli á sunnudaginn. Sigurinn var fyllilega verðskuldaður og hefði alveg getað orðið stærri. Jón Daði Böðvarsson skoraði sigurmarkið sem var einkar glæsilegt. Tók boltann á lofti utarlega í teignum og setti yfir Hannes markvörð KR. Selfoss er búið að ná inn 10 stigum í síðustu fjórum leikjum og er á fullu í fallbaráttunni. Framundan eru fjórir leikir og góður séns á að komast úr fallsæti áður en móti er á enda.

Þegar ein umferð er eftir af Pepsideild kvenna er lið Selfoss með öruggt sæti í deildinni þó svo að þær hafi tapað stórt fyrir nýkrýndum Íslandsmeisturum Þórs/KA á þriðjudaginn. Lið KR er þegar fallið og annað hvort Fylkir eða Afturelding fara með þeim niður. Selfoss á síðasta leik sinn heima gegn Stjörnunni á laugardaginn. Er um að gera að mæta og sjá stelpurnar í síðasta lek sumarsins.

Þær ánægjulegu fréttir bárust í vikunni að Guðmunda Brynja Óladóttir hefði verið valin í landsliðshóp Íslands en Ísland mætir Norður-Írum og Norðmönnum í undankeppni EM 2013. Fyrri leikurinn gegn Norður-Írum verður á Laugardalsvellinum 15. september en sá síðari ytra gegn Noregi 19. september.

Þá var Jón Daði Böðvarsson var valinn í landsliðshóp Íslands u21 sem mætir Belgum í Beveren 10. september. Katrín Rúnarsdóttir var valin í landsliðshóp Íslands u17 sem keppir í undankeppni EM 2013. Riðill Íslands fer fram í Slóveníu í byrjun september og er Ísland í riðli með Slóveníu, Tékklandi og Eistlandi.

Sannarlega góðar fréttir og margt spennandi að gerast hjá knattspyrnufólki okkar.

-ÖG