Hjálmar VIlhelm er piltur ársins 19 ára og yngri hjá FRÍ
Uppskeruhátíð Frjálsíþróttasambands Íslands fór fram í Laugardalshöllinni þann 19.desember og var mikil gleði og stemming meðal þess frjálsíþróttafólks sem mætti. Veittur var fjöldi viðurkenninga til besta og efnilegasta frjálsíþróttafólks, innan vallar sem utan, og farið yfir frjálsíþróttaárið 2025 í máli og myndum.
Tvær viðurkenningar komu til okkar fólks hjá frjálsíþróttadeild Selfoss:
Piltur ársins 19 ára og yngri:
Hjálmar Vilhelm Rúnarsson (Umf. Selfoss) er piltur ársins 2025 hjá FRÍ. Hjálmar átti alveg frábært ár í ár, setti aldursflokkamet í flokki 16-17 ára í tugþraut á NM í fjölþraut núna í sumar. Þar átti hann virkilega flotta þraut þar sem hann var efstur í tveimur greinum og annar í öðrum tveimur og bætti sinn persónulega árangur í 6 greinum af 10. Hann keppti einnig í þraut á EYOF í sumar við ansi krefjandi aðstæður þar sem hitinn var um og yfir 40 gráður, en þrátt fyrir það þá gerði hann sér lítið fyrir og var með bestan árangur í tveimur greinum og persónulega bætingu í fjórum greinum. Auk þessa þá varð hann Íslandsmeistari í hástökki utanhúss núna í lok ágúst. Hérna er virkilega öflugur og flottur íþróttamaður á ferð.
Miðlun ársins:
Daníel Breki Elvarsson og félagar og Skálin entertainment fyrir miðlunina á MÍ á Selfossi í sumar. Glæsileg tímamótamiðlun framkvæmd af hugsjón fyrir frjálsíþróttum. Frábær og sérlega glæsileg frumraun hjá þeim félögum. Með Daníeli Breka í miðluninni voru þeir Axel Sturla Grétarsson, Konráð Ingi Finnbogason, Noël Elias Chareyre, Hjálmar Helgi Rise, Filip Markus Szafranowics og Halldór Gunnar Þorsteinsson. Búnaður var frá Skálin entertainment (Daníel Breki og allir sem upptaldir eru hér að ofan) og Streyma (Baldvin AB Aalen) og SUB ehf(Sigurgeir Skafti Flosason).

Noël Elias, Hjálmar Helgi og Daníel Breki með viðurkenninguna fyrir Miðlun ársins 2025 hjá FRÍ.