Ingibjörg Erla vann silfur í Serbíu

Taekwondo Ingibjörg Erla Serbía I
Taekwondo Ingibjörg Erla Serbía I

Taekwondokonan Ingibjörg Erla Grétarsdóttir hjá Umf. Selfoss keppti um helgina á Serbia Open sem er G1 mót s.s. af hæsta styrkleika. Hún gerði sér lítið fyrir og vann til silfurverðlauna á mótinu og varð þar með fyrst allra Íslendinga til að lenda á palli á G-klassa móti.

Ingibjörg Erla keppti í flokki, Seniors Female A-62 (Light) ásamt 30 öðrum keppendum þannig að það var við ramman reip að draga. Hún var skráð til keppni fyrir Team Tveita frá Noregi sem er eitt af systurfélögum Taekwondodeildar Selfoss í gegnum Team Nordic. Ástæða þess að Ingibjörg keppir undir merkjum norska félagsins er sú að það kostar kr. 500.000 að fá leyfi fyrir þjálfara á G-klassa mótum og litla deildin okkar hefur einfaldlega ekki efni á því.

Í fyrsta bardaga sínum keppti Ingibjörg á móti grískum keppanda sem hún vann 5-1. Næsti mótherji var frá Ungverjalandi en Ingibjörg vann hana einnig 5-1. Í þriðja bardaganum sýndi hún klærnar á móti rússneskri stelpu og vann 10-4. Í næsta bardaga varð keppandi frá Hvíta-Rússlandi að gefa bardagann vegna meiðsla og þar með var hún komin í úrslitabardagann.

Ingibjörg Erla keppti síðan til úrslita við keppanda frá Króatíu sem hafði betur og vann Ingibjörgu 13-1.

Frábær árangur hjá frábærri taekwondokonu.

Áfram Selfoss

pj

---

Ingibjörg Erla með silfurverðlaun sín í Serbíu.
Ljósmyndir: Umf. Selfoss

Taekwondo Ingibjörg Erla Serbía II