Jafntefli á móti Fylki

Þuríður Guðjónsdóttir
Þuríður Guðjónsdóttir

Stelpurnar í mfl. kvenna hafa lokið þátttöku sinni í Olísdeildinni eftir leikinn í dag á móti Fylki. Leikurinn var erfiður og Selfoss alltaf skrefi á eftir Fylki. Hrafnhildur Hanna ver tekin úr umferð mest allan tímann sem riðlaði leik Selfoss töluvert. Þegar tíu mínútur voru til leikhlés kom slæmur kafli hjá Selfoss sem lenti mest fjórum mörkum undir þegar skammt var til loka fyrri hálfleiks en staðan í hléi var 9-12 fyrir gestina.

Selfyssingar byrjuðu seinni hálfleik af krafti og jöfnuðu leikinn í 13-13 á einungis fimm mínútum. Fylkir hafði þó áfram frumkvæðið í leiknum og náði þriggja marka forystu þegar skammt var til leiksloka. Þá gáfu stelpurnar í og náðu að jafna í 22-22 á síðustu mínútunni. Fylkir var með boltann síðustu 40 sekúndurnar en tókst ekki að koma honum í netið eftir góða vörslu Áslaugar sem stóð í marki Selfoss í dag. Lokatölur urðu því 22-22 og eitt stig í hús.

Stelpurnar ljúka keppni með 10 stig eftir veturinn. Þær náðu ekki inn í úrslitakeppnina en hefja þess í stað undirbúning fyrir næsta tímabil snemma. Markmið liðsins fyrir tímabilið var að ná inn fleiri stigum en tímabilið á undan og tókst það. Þetta er annað árið sem liðið er skráð til keppni á meðal þeirra bestu og er stígandi í þessu unga og efnilega liði. Veturinn hefur verið strangur hjá þeim enda margir meistaraflokksleikmenn einnig að spila með 3. flokki þannig að leikjaálagið er töluvert og nokkuð hefur verið um meiðsli.

Mörk Selfoss skorðuðu Þuríður 11, Hrafnhildur Hanna 6, Carmen 2, Perla Ruth, Kara Rún og Hildur Öder 1 hver. Áslaug varði 16 bolta í marki Selfoss og marga á mikilvægum augnablikum.

---

Þuríður átti stórleik og var langmarkahæst Selfyssinga í dag.