Jólasveinarnir mæta í miðbæinn 10.des

Jólasveinarnir í Ingólfsfjalli
Jólasveinarnir í Ingólfsfjalli

Árum saman hefur Ungmennafélag Selfoss sinnt ákveðnum þjónustustörfum fyrir jólasveinana þrettán sem búa í Ingólfsfjalli. Þeir hafa boðað komu sína í miðbæinn klukkan 16:00 laugardaginn 10.desember. Þar ætla þeir að heilsa upp á börnin, syngja og koma öllum í réttu jólastemmninguna .

Í framhaldinu eru þeir svo æstir í að koma í heimsóknir í skóla, leikskóla og fyrirtæki á Selfossi. Upplýsingar um þessa þjónustu má fá í síma 482 4822 eða 782-3465 (Óli Ben) eða með tölvupósti á netfangið umfs@umfs.is

Á aðfangadag hafa jólasveinarnir boðist til að fara með litla jólapakka heim til krakka á Selfossi. Nú er svo komið að íbúafjölgun á Selfossi og nágrenni er orðin svo mikil að jólasveinarnir treysta sér ekki lengur til að veita þessa þjónustu svo vel sé á aðfangadag, þar sem dagurinn dugar þeim ekki lengur til að komast yfir allan þann fjölda sem verið hefur undanfarin ár. Þeir hafa ekkert verið á ferðinni þessi tvö ár sem Covid hefur geisað og síðan fyrir Covid hefur íbúum fjölgað enn meira. Það er ekki gott að þurfa að velja úr hverjum þeir geti sinnt og hverjum ekki og alls ekki að vera að koma í heimsókn þegar fjölskyldur eru sestar við borðhald og búið að hringja inn jólin kl. 18.

Þeim þykir leitt að geta ekki sinnt þessari þjónustu áfram eftir öll þessi ár, en þar sem þeir vilja gera hlutina vel, neyðast þeir til að hætta þessu frekar en að geta ekki sinnt þessu vel og vandlega. Þeir vona að fólk sýni þessu skilning og hugsi hlýtt til þeirra í desember.

f.h Jólasveinanna í Ingólfsfjalli.

Ungmennafélag Selfoss.