Landsliðin í hópfimleikum að leggja í hann á Evrópumótið í hópfimleikum

Ísland sendir landslið í fjórum mismunandi flokkum á Evrópumótið í hópfimleikum sem fram fer í Árósum dagana 18.-20.október.  Hópurinn sem samanstendur af 56 keppendum, 12 þjálfurum, sjúkraþjálfara, dómurum, farastjórum og íþróttafréttamanni heldur utan á morgun þriðjudaginn 16.okt. en æfingar í keppnishöllinni hefjast á miðvikudaginn.

Selfyssingar eiga af þessum hópi 11 keppendur í þremur mismunandi liðum, tvo þjálfara og einn dómara.  Miklar æfingar hafa verið síðustu vikur og hópurinn að verða klár en síðasta æfing liðanna fór fram í Gerplu í gær þar sem hópurinn fékk afhentan fatnað frá Under Armour Icleand. 

Mikill hugur er í liðunum og allir með sín markmið á hreinu en kvennalið Íslands hefur titil að verja og unglingalið kvenna hafnaði í 3.sæti á síðasta evrópumóti og stefnir lengra.  Þetta er í fyrsta sinn sem Ísland sendir landslið í blönduðum flokki unglinga sem og fullorðina en það verður gaman að fylgjast með þeim í harðri keppni.

Keppnin hefst á fimmtudaginn í flokki blandaðra liða og á föstudag hefst keppni í kvennaflokkum.  Hægt verður að fylgjast með úrslitum á RUV á laugardagsmorguninn en einnig verður streymt frá keppninni á netinu en slóðina má finna inná heimasíðu mótsins www.teamgym2012.dk

Meðfylgjandi eru myndir af þremur landsliðum islands sem Selfyssingar eiga sæti í.  ÁFRAM ÍSLAND!

 

Efri röð, Eva önnur frá vinstri og Margrét fyrir miðju. Á myndina vantar Hrafnhildi Hönnu en hún var veik. 

 

Efri röð, Ægir lengst til vinstri, Aron þriðji frá vinstri
Neðri röð, Bryndís Arna fyrir miðju og Ástrós til hægri við hana. 

 

Neðri röð, Helga lengst til vinstri, Katrín Ösp fjórða frá vinstri, Hugrún Hlín lengst til hægri og Rakel Nathalie þriðja frá hægri.