Mótokrossdeild Selfoss í samvinnu við vélhjóladeild Þórs í Þorlákshöfn

Mótokross - Skemmtikeppni vor 2016 (1)
Mótokross - Skemmtikeppni vor 2016 (1)

Um seinustu helgi hélt vélhjóladeild Umf. Þórs í Þorlákshöfn skemmtikeppni á vélhjólasvæði deildarinnar með dyggum stuðningi mótokrossdeildar Umf. Selfoss en deildirnar hófu samstarf nú á vormánuðum og fer það mjög vel af stað.

Á bak við svona keppni liggur mikil vinna sem oft lendir á fáum höndum og erum við því spennt fyrir samstarfi deildanna og þakklát öllum þeim aðilum sem komu að undirbúningi keppninnar og þeim sem veittu sína aðstoð á keppnisdegi. Sérstakar þakkir fær björgunarsveitin í Þorlákshöfn en svona keppni er ekki hægt að halda nema vera með öryggisatriði og tilskilin leyfi í lagi. Við leituðum einnig stuðnings heimamanna (fyrirtækja) í sambandi við verðlaun fyrir keppnina. Tóku allir vel í það og gáfu fúslega góð og nytsamleg verðlaun og berum við Skálanum, Frostfiski, Náttúru fiskirækt, Meitlinum veitingahúsi og þeirra forsvarsmönnum bestu þakkir fyrir.

Keppnin var ljómandi góð byrjun á hjólasumrinu og þátttakendur og áhorfendur almennt ánægðir með þessa uppákomu hjá okkur. Þarna mættu á þriðja tug hjólara, ungir sem aldnir og kepptu saman í tveggja manna liðum þar sem viðmiðið var vanur ökumaður á móti óvönum. Í svona keppni eru reglur leiksins ekki mjög stífar og gerir það keppnina afslappaða og skemmtilega.

Þetta var góður dagur sem einkenndist af samvinnu og gleði í góðu veðri.

Gleðilegt hjólasumar,
f.h. vélhjóladeildar Umf. Þórs og mótokrossdeildar Umf. Selfoss,
Helga Helgadóttir

---

Það var létt yfir keppendum í brautinni í Þorlákshöfn.
Ljósmyndir: Umf. Selfoss/Karl Ágúst Hoffritz

Mótokross - Skemmtikeppni vor 2016 (3) Mótokross - Skemmtikeppni vor 2016 (2)