Ógleymanleg ferð 3. flokks stelpna á USA Cup

3. fl. kvk. á leið á USA CUP
3. fl. kvk. á leið á USA CUP

Ferðinni var heitið á USA Cup í Minneapolis, sem er stærsta knattspyrnumót í heimi, þar sem um 15 þúsund knattspyrnuiðkendur taka þátt. Allt í allt voru um 40 manns með í ferðinni með keppendum, fararstjórum og foreldrum.

Spilað í 36 gráðu hita

Við lentum um kvöldið í Minneapolis í miklum hita og borðuðum á stað sem heitir Joe Senser þar sem fólk fékk missterkan mat. Við gistum fyrstu nóttina á hótelinu þar sem fylgilið okkar dvaldi. Daginn eftir byrjuðum við á því að fara í Valley Fair skemmtigarðinn. Mikið stress var í mannskapnum og leið yfir nokkrar. Innrituðum okkur síðan inná heimavistina þar sem hin liðin voru. Daginn eftir var fyrsti leikurinn og var hann á móti Arsenal Select. Við unnum þann leik nokkuð auðveldlega eða 2-0. Mikill hiti var þegar við spiluðum eða um 36 gráður. Við gættum okkur á því að drekka mikið vatn og skiptum reglulega inn á leikmönnum. Sigrinum var síðan fagnað með því að fara í Target og þar var verslað af sér rassinn.

Um kvöldið var opnunarhátíðin og þar vildu auðvitað allir fá mynd af sér með sætu stelpunum frá Íslandi. Var mikið fagnað þegar við gengum inn á völlinn og var það mjög gaman.

Komumst í 4-liða úrslit

Næsta dag fengum við að keppa á aðalvelli Minnesota United í beinni útsendingu á móti North Metro Renegades. Sá leikur fór 2-2 og var leikurinn mjög jafn og því nokkuð sanngjörn úrslit. Eftir leikinn fórum við og hittum Íslendingafélagið í Minnesota. Þar var tekið á móti okkur með dýrindis mat. Daginn eftir kepptum við á móti EPSC sem var seinasti leikurinn í riðlinum okkar. Sá leikur tapaðist 4-2 en við vorum ekki lengi að rífa okkur upp því ferðinni var heitið í Albertville og þar var sko verslað. Sama dag var okkur tilkynnt að værum á leið í 8-liða úrslit þrátt fyrir tapið og fagnaðarlátunum ætlaði aldrei að linna. Í 8-liða úrslitunum kepptum við á móti sænsku liði og unnum þær 2-1 í hörkuleik. Þannig að eitt var víst við vorum á leið í undanúrslit. Í undanúrslitunum kepptum við á móti mjög sterku japönsku liði og unnu þær okkur 2-1 eftir framlengingu. Þær skoruðu sigurmarkið þegar 50 sekúndur voru eftir af síðari hálfleik framlengingarinnar. Við fórum á úrslitaleikinn næsta dag og unnu þær japönsku leikinn 1-0 gegn Minneapolis United. Sigurliðið frá Japan fékk bara á sitt eitt mark í allri keppninni og það var gegn Selfoss.

Mall Of America

Eftir leikinn var ferðinni haldið á Bunker Beach sem er lítill vatnsrennibrautargarður. Þar var skemmt sér vel og aðeins sleikt sólskinið. Daginn eftir var farið í Mall Of America sem ein stærsta verslunarmiðstöð í heimi. Þið getið rétt svo ímyndað ykkur hvað það var mikið keypt þar. Þá er það mánudagurinn en hann var frjáls dagur. Sumar fóru í verslunarleiðangur en þær sem voru búnar með peninginn fóru aftur á Bunker Beach. Næsta dag var heimferðardagur og þar með var frábærri ferð lokið.

Að lokum viljum við þakka Jóa þjálfara, Magga Tryggva og Guðbjörgu fyrir að hafa gert þessa ferð ógleymanlega. Síðan má ekki gleyma stuðningsliðinu okkar en þau stóðu sig frábærlega á hliðarlínunni. Viljum síðan hvetja fólk til að koma á leiki hjá okkur í sumar.

Áfram Selfoss stelpur!