Óskað eftir nýju dansgólfi

Fimleikar - Subway Íslandsmótið 2016
Fimleikar - Subway Íslandsmótið 2016

Fimleikadeild Umf. Selfoss hefur sent bæjarráði Árborgar bréf þar sem deildin óskar eftir fjárveitingu til að kaupa nýtt dansgólfi fyrir deildina. Í bréfinu kemur fram að slíkt gólf kostar 2.790.000 krónur.

Í erindi deildarinnar kemur fram að núverandi dansgólfi sé orðið mjög slitið og ekki lengur boðlegt eldri iðkendum. Gólfið er orðið það slitið að renningar gliðni hver frá öðrum þegar eldri hópar séu að dansa. Til að lengja líftíma gólfsins keypti deildin nýja rennilása fyrir nokkrum árum, en nú er svo komið að þeir nái ekki góðu gripi í gólfefnið og losna auðveldlega við álag. Þá lyftast þeir upp og iðkendur geta flækst í þeim auk þess sem gólfið gliðnaar og rifur myndist sem skapa stórhættu fyrir fimleikafólk. Þegar haldin eru mót þarf að raða ungum iðkendum við jaðra gólfsins og sitja þeir og spyrna við gólfið til að það gliðni síður í sundur og reglulega þarf að gera hlé milli liða til að festa gólfið betur.

Mjög hæpið er að láta iðkendur æfa á slíku gólfi þar sem slysahætta eykst til mikilla muna þegar rennilásar losna eða gólf gliðna.

Nú er svo komið að önnur félög fást ekki til að koma á mót á Selfossi nema að tryggt sé að ekki verði keppt á Selfossgólfinu og verður deildin þá að leigja gólf fyrir slík mót. Mótahald er stærsti þátturinn í fjáröflun deildrinnar og mikilvægt að deildin verði ekki af tekjum vegna þessa.

Í greinargerð fimleikadeildar segir enn fremur: „Minna má á að deildin er að sýna afburða árangur í starfi sínu, meistaraflokkur deildarinnar er í dag bikar-, deildar- og Íslandsmeistarar í greininni annað árið í röð, auk þess sem yngri flokkar hampa fjölda titla. Í landsliðum Íslands sem keppa á Evrópumeistaramótinu í Slóveníu í október eigum við átta liðsmenn. Mikilvægt er að hlúa vel að afreksfólki og sjá til þess að það geti sinnt íþrótt sinni í öruggu umhverfi, þau eru yngri iðkendum mikik fyrirmynd og sveitarfélaginu til sóma.“

---

Frá keppni á Íslandsmótinu sem fram fór á Selfossi sl. vor.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/Inga Heiða Heimisdóttir