Ráðstefnan Ungt fólk og lýðræði haldin á Selfossi

Ungmennaráð Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) stendur nú í sjöunda sinn fyrir ráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði. Yfirskrift ráðstefnunnar í ár er Niður með grímuna – geðheilbrigði ungmenna á Íslandi og mun hún fara fram 16.-18. mars á Hótel Selfossi. Ungmennaráð UMFÍ hefur veg og vanda að ráðstefnunni en jafnframt koma Héraðssambandið Skarphéðinn og Sveitarfélagið Árborg að undirbúningi.

Ungmennaráð UMFÍ hefur fengið til liðs við sig fagfólk frá Kvíðameðferðarstöðinni. Áhersla verður lögð á óformlegt nám og virka þátttöku í vinnustofum ráðstefnunnar. Þátttakendur fá senda spurningalista um stöðu geðheilbrigðismála í sínu sveitarfélagi eftir 5. febrúar. Spurningarlistum þarf að skila til UMFÍ á netfangið ragnheidur@umfi.is fyrir 4. mars. Útkoma spurningalistanna koma til með að skipa mikilvægt hlutverk í vinnu ráðstefnunnar. Frekari upplýsingar um dagskrá og vinnutilhögun berast um miðjan febrúar.

Ráðstefnan er ætluð ungu fólki á aldrinum 16 - 25 ára. Fjöldi þátttakenda verður takmarkaður við 80 manns eða tvo þátttakendur frá hverju sveitarfélagi auk starfsmanns ef vill. Þátttakendum yngri en 18 ára verður að fylgja fullorðinn einstaklingur. Þátttökugjald eru 12.000 kr. fyrir hvern einstakling. Innifalið eru allar ferðir, uppihald og ráðstefnugögn.

Fjármálastjóri UMFÍ sendir reikning fyrir þátttökugjöldum þegar skráningar liggja fyrir. Vinsamlegast sendið skráningar á netfangið ragnheidur@umfi.is. Skráningafrestur er til 26. febrúar.