Selfoss komið í úrslit í umspilinu

Handbolti - HK-Selfoss
Handbolti - HK-Selfoss

Eftir tvo sigurleiki á móti HK er Selfoss komið í úrslit í baráttunni um áframhaldandi sæti í Olís-deild kvenna. Seinni leikur liðanna fór fram í Digranesi í gær.

Leikurinn var svipaður og fyrri leikur liðanna, Selfoss hafði frumkvæðið en náði aldrei að hrista HK almennilega af sér. Stelpurnar okkar náðu mest fimm marka forskoti í fyrri hálfleik og leiddi 10-13 þegar flautað var til leikhlés. Baráttan hélt áfram í seinni hálfleiknum en þegar um sjö mínútur voru eftir af leiknum var Selfoss komið með sex marka forystu, 16-22 og sigurinn nánast í höfn. HK var þó ekki á því að gefa eftir og náði að saxa óþarflega mikið á forskotið þó tíminn væri of stuttur til að jafna. Lokatölur 21-23 fyrir Selfoss.

Einnig er fjallað um leikinn á vef Sunnlenska.is.

Kristrún Steinþórsdóttir var markahæst Selfyssinga með 6 mörk og þær Dijana Radojevic og Adina Ghidoarca skoruðu báðar 4 mörk. Ída Bjarklind Magnúsdóttir skoraði 3, Carmen Palamariu og Perla Ruth Albertsdóttir 2 og Hulda Dís Þrastardóttir og Arna Kristín Einarsdóttir skoruðu 1 mark hvor. Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 16 skot í marki Selfoss sem gerir 43% markvörslu.

Selfoss mætir annað hvort FH eða KA/Þór í úrslitum, .

Með sigrinum er Selfoss komið í úrslit umspilsins og mun annað hvort mæta FH eða KA/Þór í úrslitarimmunni en þau lið mætast í oddaleik á Akureyri á miðvikudagskvöld. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki í úrslitunum mun spila á meðal þeirra bestu næsta vetur en Selfoss stelpur eru ákveðnar í að halda sæti sínu þar.

---

Stelpurnar okkar fagna sigri í leikslok.
Ljósmynd: Umf. Selfoss