Selfoss leikur til úrslita

Borgunarbikar Fylkir-Selfoss
Borgunarbikar Fylkir-Selfoss

Selfoss sigraði í gær lið Fylkis í undanúrslitum í Borgunarbikar kvenna en leikurinn fór fram á Fylkisvellinum. Grípa þurfti til vítaspyrnukeppni til að útkljá leikinn eftir að staðan var jöfn 2-2 að loknum venjulegum leiktíma og framlengingu. Alexa Gaul, markvörður Selfoss, var hetja Selfyssinga í vítakeppninni því hún varði allar spyrnur Fylkis auk þess að skora sjálf af öryggi úr einni slíkri.

Það er óhætt að segja að gríðarleg stemming hafi myndast meðal Selfyssinga sem fjölmenntu á leikinn og studdu stelpurnar dyggilega allan leikinn. Tvær stórar rútur frá Guðmundi Tyrfingssyni fullar af Selfyssingum fluttu stuðningsmenn í Árbæinn auk þess sem fjöldi fólks mætti á eigin vegum.

Fólk var rétt búið að koma sér fyrir þegar Celeste Bourille kom Selfyssingum yfir strax á 8. mínútu. Yfirburðir Selfyssinga voru nokkrir í fyrri hálfleik og fóru góð færi forgörðum. Því kom það eins og köld vatnsgusa framan í stuðningsmenn Selfoss þegar Fylkisstúlkur jöfnuðu á 37. mínútu. Staðan í hálfleik var 1-1.

Seinni hálfleikur var keimlíkur þeim fyrri þar sem Blake Stockton kom Selfoss yfir á 50. mínútu og héldu margir að nú væri björninn unninn. En þrátt fyrir ágæt færi fór svo að Fylkir jafnaði aftur átta mínútum fyrir leikslok.

Í framlengingu skiptust liðin á að sækja en Selfyssingar ávallt hættulegri í sínum aðgerðum. Ekkert mark var hins vegar skorað og þurfti því að grípa til vítaspyrnukeppni.

Fyrsta spyrna Selfyssinga frá Dagnýju Brynjarsdóttur var varin en það kom ekki að sök því að Alexa Gaul varði allar þrjá vítaspyrnu Fylkiskvenna á meðan Celeste og Alexa skoruðu fyrir Selfoss. Það var svo fyrirliðinn sjálfur, Guðmunda Brynja Óladóttir sem tryggði Selfyssingum sigurinn með því að skora úr fjórðu spyrnu liðsins.

Með því tryggði liðið sér sæti í úrslitaleik Borgunarbikarkeppninnar sem fram fer á Laugardalsvelli laugardaginn 30. ágúst klukkan 16:00.

Að lokum er rétt að minnast á frábæra stuðningsmenn Selfoss sem fjölmenntu á leikinn. Áhorfendur á leiknum voru 1068 og meirihluti þeirra á bandi Selfyssinga sem stóðu fyrir sætaferðum á leikinn. Selfyssingar áttu stúkuna frá fyrstu mínútu og voru svo sannarlega tólfti maður Selfyssinga í leiknum.

Glæsilegur árangur hjá stelpunum. Til hamingju með árangurinn Selfoss.

Fjallað var um leikinn á vef Sunnlenska.is auk þess sem þar má finna viðtal við Alexu Gaul og myndasyrpu frá leiknum.

Gaul varði allar vítaspyrnur Fylkis - Sunnlenska.is

„Ég er ekki vítaspyrnusérfræðingur“ - Sunnlenska.is

Myndir: Selfyssingar hertóku Árbæinn - Sunnlenska.is

Hér fyrir neðan má skoða mörkin og helstu atvik úr leiknum ásamt viðtölum við Selfyssinga sem birtust á vefnum Fótbolti.net.

Borgunarbikar kvenna: Selfoss í úrslitin í fyrsta sinn - Fótbolti.net

Sjáðu mörkin og vítakeppnina þegar Selfoss vann Fylki - Fótbolti.net

Selfoss í bikarúrslitin í fyrsta sinn í ótrúlegum leik - Fótbolti.net

Myndaveisla: Selfoss í bikarúrslit - Fótbolti.net

Viðtal: Gunnar Borgþórsson - Fótbolti.net

Viðtal: Guðmunda Brynja Óladóttir - Fótbolti.net

Viðtal: Dagný Brynjarsdóttir - Fótbolti.net

Myndband: Erna Guðjóns í klefaspjalli - Fótbolti.net

---

Fögnuður Selfyssinga í leikslok var ósvikinn.
Mynd: Sunnlenska.is/Guðmundur Karl