Selfoss leikur til úrslita í bikarnum

2015-07-25 Knattspyrna S-Valur undanúrslit 005
2015-07-25 Knattspyrna S-Valur undanúrslit 005

Stærsti leikur ársins á Suðurlandi fór fram á JÁVERK-vellinum á laugardag þegar Selfoss tók á móti Val í undanúrslitum Borgunarbikarsins. Það fór svo að Selfoss sigraði 3-2 í dramatískum leik sem hafði upp á allt að bjóða. Sannkallaður konfektmoli fyrir öll skynfæri.

Stuðningsmenn liðsins fjölmenntu á leikinn og urðu vitni að glæsilegum sigri Selfyssinga sem mæta Stjörnunni úrslitaleik á Laugardalsvelli þann 29. ágúst. Stjarnan er ríkjandi bikarmeistari en eins og mönnum er í fersku minni laut Selfoss í lægra haldi fyrir Stjörnunni í úrslitaleiknum á seinasta ári.

Fjörugur fyrri hálfleikur

Leikurinn byrjaði mjög fjörlega og fékk Selfoss víti snemma leiks. Guðmunda Brynja Óladóttir fór á punktinn, en spyrna hennar var varin. Dómari leiksins vildi láta endurtaka spyrnuna, sem Donna Kay Henry tók, en aftur varði markvörður Vals.

Valsstúlkur skoruðu í kjölfarið tvö mörk og skyndilega var bikardraumur okkar orðinn fjarlægur möguleiki. Thelma Björk Einarsdóttir sem hafði komið inn á fyrir Hrafnhildi Hauksdóttur gaf Selfyssingum von þegar hún minnkaði muninn rétt fyrir leikhlé með glæsilegu skoti utan af velli. Thelma að leika sinn fyrsta leik fyrir Selfoss á árinu en Hrafnhildur viðbeinsbrotnaði þegar hún lenti illa á öxlinni.

Dramatík í síðari hálfleik

Í upphafi seinni hálfleiks fékk Valur víti sem Chante Sandiford gerði sér lítið fyrir og varði með tilþrifum. Chante átti afbragðsleik og varði oft frá leikmönnum Vals þegar auðveldara virtist að skora.

Sóknir Selfyssinga þyngdust eftir því sem leið á leikinn og oftar en ekki mátti litlu muna að jöfnunarmarkið liti dagsins ljós. Tuttugu mínútum fyrir leikslok gerði Gunnar Rafn Borgþórsson þjálfari tvöfalda skiptingu þegar Bríet Mörk Ómarsdóttir og Magdalena Anna Reimus komu inn á og frískuðu upp á lið Selfoss svo um munaði. Bríet tók sér stöðu í vörn Selfoss og Summer Williams færði sig fram á miðjuna.

Það tók örskamma stund fyrir Selfyssinga að nýta sér yfirburðina þegar Dagný Brynjarsdóttir fylgdi vel eftir aukaspyrnu Ernu Guðjónsdóttur og jafnaði leikinn ellefu mínútum fyrir leikslok við mikinn fögnuð og létti stuðningsmanna Selfoss.

Yfirburðir Selfyssinga héldu áfram en sigurmarkið lét á sér standa og allt virtist stefna í framlengingu. Það var búið að hella upp á nýtt kaffi í sjoppunni og komið fram á þriðju mínútu í uppbótartíma þegar Thelma sendi hárnákvæma aukaspyrnu beint á kollinn á fyrirliðanum Guðmundu sem sneiddi boltann snyrtilega yfir markvörð Vals.

Áhorfendur spruttu á fætur í fögnuði og ekki var fögnuðurinn síðri andartökum síðar þegar dómarinn flautaði leikinn af og ljóst að Selfoss er á leið í úrslitaleikinn á Laugardalsvelli annað árið í röð.

Glæsilegur árangur hjá stelpunum okkar sem eru svo sannarlega stolt sunnlenskrar knattspyrnu.

Á vef Sunnlenska.is má finna umfjöllun um leikinn og viðtal við Gunnar þjálfara.

---

Stelpurnar fagna sigurmarki Selfyssinga.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/Gissur